Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:20]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Frú forseti. Ég var að lesa upp úr umsögn Rauða krossins á Íslandi um 6. gr. þessa frumvarps þegar ég hætti áðan, féll á tíma. Ég ætla að vinda mér beint að efninu til að nýta tímann sem best. Í umsögn Rauða krossins um 6. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Þau réttindi sem fjallað er um í 33. gr. útl. eru grundvallarréttindi og mikilvægt að líta til þess hverjar afleiðingar og áhrif umræddrar tillögu yrðu, verði hún að lögum. Áhrif tillögunnar á stöðu, velferð og mannvirðingu umsækjenda um alþjóðlega vernd eru nokkuð augljós. Réttur þeirra til framfærslu, húsnæðis og heilbrigðisþjónustu fellur niður og því er fyrirséð að þau sem ekki yfirgefa landið innan 30 daga verða heimilislaus án framfærslu. Ekki má heldur draga úr mikilvægi þess að fólk njóti grunnheilbrigðisþjónustu á meðan það dvelur hér á landi.

Í 6. gr. frumvarpsins segir að ekki sé heimilt að fella niður réttindi alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Í athugasemdum við frumvarpsgreinina segir að með alvarlegum veikindum sé átt við þá einstaklinga sem ekki séu fyllilega færir um að sjá um sig sjálfir, hvort sem er vegna andlegra eða líkamlegra veikinda, og velferð þeirra yrði alvarlega ógnað ef réttindi þeirra yrðu niður felld. Með fötluðum einstaklingi með langvarandi stuðningsþarfir sé átt við þá sem hafi þörf fyrir þjónustu og/eða stuðning sem sé meiri eða sérhæfðari en svo að þörfinni verði fullnægt innan almennrar þjónustu. Rauði krossinn hefur um margra ára skeið gert margháttaðar og alvarlegar athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna veikinda eða fötlunar en svo virðist sem verulega þröng skilyrði þurfi að uppfylla svo umsækjendur geti talist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu má finna í 6. tölul. 3. gr. útl. en þar segir:

Einstaklingar sem vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögum þessum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. fylgdarlaus börn, fatlað fólk, fólk með geðraskanir eða geðfötlun, aldrað fólk, þungaðar konur, einstæðir foreldrar með ung börn, fórnarlömb mansals, alvarlega veikir einstaklingar og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum, kynfæralimlestingum, nauðgun eða öðru alvarlegu andlegu, líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Upptalning ákvæðisins um þá persónulegu eiginleika eða aðstæður sem taka þarf tillit til við meðferð máls og geta leitt til þess að einstaklingur teljist sérstaklega viðkvæmur í skilningi útl. eru ekki tæmandi taldar sbr. orðalagið „t.d.“ Í 1. mgr. 25. gr. útl. segir að mat á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. gr. útl. skuli fara fram með aðstoð viðeigandi sérfræðinga. Líkt og sjá má í umfjöllun Rauða krossins um 2. gr. frumvarpsins hér að framan hefur félagið ítrekað gert athugasemdir við mat Útlendingastofnunar á stöðu umsækjenda og hugsanlegum sérþörfum líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 25. gr. útl. Hefur reynslan sýnt að stofnunin vanræki skyldu sína til að hafa frumkvæði að slíkri rannsókn, jafnvel þegar vísbendingar eru uppi um að einstaklingar teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í fjölda tilvika hefur Útlendingastofnun látið hjá líða að bíða eftir mikilvægum heilbrigðisgögnum áður en ákvörðun er tekin í máli sem leiðir til þess að umsækjendur eru ekki með réttu metnir í sérstaklega viðkvæmri stöðu, auk þess sem sjaldnast er óskað eftir aðstoð sérfræðinga við slíkt mat, en Rauði krossinn telur slíkt fálæti ekki standast áskilnað laganna.“

Þarna eru við að tala um lögin eins og þau eru. Við erum ekki að tala um frumvarpið.

Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Þá hefur kærunefnd útlendingamála metið sem svo að það sé ekki hlutverk nefndarinnar að endurskoða mat Útlendingastofnunar á sérstaklega viðkvæmri stöðu. Afleiðingar þessarar vanrækslu Útlendingastofnunar geta verið alvarlegar þegar umsækjendur sem í raun falla undir hugtakaskilgreiningu 6. tölu. 3. gr. útl. fá ekki viðurkenningu á stöðu sinni þar sem ekki hefur farið fram rannsókn á andlegu eða líkamlegu ástandi viðkomandi í samræmi við 1. mgr. 25. gr. útl.“

Ég ætla að láta staðar numið hér og ítreka það sem ég var að segja. Hér erum við að lýsa stöðunni samkvæmt núgildandi lögum. Við erum að lýsa því hvernig Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála meta andlegt og líkamlegt heilbrigði umsækjenda og hugsanlega langvarandi stuðningsþarfir þeirra í núgildandi kerfi. (Forseti hringir.) Þetta ákvæði sem við erum að tala um, 6. gr. frumvarpsins, (Forseti hringir.) sem sviptir fólk þjónustu nema það teljist hafa slíkar langvarandi stuðningsþarfir, (Forseti hringir.) gerir vissulega kröfu um að stjórnvöld séu fær um að meta þetta með réttum hætti.

Ég óska eftir því að vera aftur sett á mælendaskrá.