Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  2. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[21:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands er ágætlega viðamikil og fjallar um margar greinar málsins. Hún byrjar einfaldlega á að árétta skort á samráði og vísar til yfirlýsinga 15 samtaka sem fordæma þetta frumvarp. Svo er fjallað um þessa sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála, 2. gr. Mannréttindaskrifstofa Íslands telur að þetta ætti að vera valkvætt. Þetta takmarkar tíma til að glöggva sig á efni ákvörðunar Útlendingastofnunar og til að afla nauðsynlegra gagna; til þess fallið að valda réttindamissi. Ég veit ekki einu sinni af hverju við þurfum að biðja um eitthvert óháð lögfræðiálit, í alvörunni. Það eru bara einhvern veginn viðbrögð við því að þrátt fyrir allar umsagnirnar og allt sem umsagnirnar segja þá trúir meiri hlutinn því ekki. Það er bara þannig. Það væri næstum því ótrúlegt ef maður myndi ekki sjá ýmislegt annað sem stjórnvöld eru að gera, sérstaklega í þessum málaflokki. Þau geta ekki annað en vitað að þetta sé rangt sem þau eru að gera miðað við mannréttindaákvæði og miðað við stjórnsýslulög, en þau gera þetta samt. Hvað þarf eiginlega til til þess að stjórnvöld fari svona fram hjá þessu og búi til þennan réttindamissi á svo víðtækan hátt sem finnst í þessu frumvarpi? Hvernig gátu allir þessir flokkar í ríkisstjórn skrifaði undir það? Ég verð furðulostnari í hvert skipti sem ég les meira af þessum umsögnum.

Mannréttindaskrifstofa Íslands vísar til meginreglna stjórnsýslulaga, svo sem andmælaréttar, rannsóknarreglu og réttarins til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta eru grundvallaratriði sem við þurfum að skoða í samhengi við þetta frumvarp, einfaldlega af því að það gengur svo gróflega á þau ákvæði sem þar er fjallað um, á þann rétt sem þar er fjallað um. Mannréttindaskrifstofan fjallar um hvernig þjónusta falli brott eftir 30 daga, þ.e. 6. gr., en þarna er um að ræða grundvallarmannréttindi, svo sem réttinn til heilsu og mannsæmandi lífs. Réttindi þess eru tryggð í samningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem Ísland er aðili að og hefur fullgilt. Íslensk stjórnvöld mega ekki fara gegn þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem þau hafa undirgengist. Verður að teljast óásættanlegt að svipta fólk þjónustu, skilja það eftir heimilislaust án framfærslu og viðunandi heilbrigðisþjónustu. Það býður einfaldlega upp á mansal, ofbeldi og aðra hagnýtingu á aðstæðum viðkomandi. Og aftur, þá fallast mönnum pínulítið hendur þegar meiri hlutinn einhvern veginn virðist ekki sjá þetta eða ef meiri hlutinn sér þetta en gerir ekkert í því. Segir bara: Já, heyrðu, við erum til í það, til að hræða burt fólk svo það komi ekki hingað af því að við viljum bara vera … Ó, ég ætla ekki að halda áfram með þessa setningu.

7. gr. fjallar um endurteknar umsóknir og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir ætlar að koma og fjalla aðeins um hana af sinni stöku snilld á eftir. En Mannréttindaskrifstofa Íslands telur þessa takmörkun fela í sér réttarskerðingu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd þar sem ætlunin er að ný málsmeðferð endurtekinna umsókna komi í stað endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga. Bent er á að stjórnsýslulög kveði á um lágmarksrétt — enn einn umsagnaraðilinn sem bendir á að það er verið að fara á skjön við stjórnsýslulög. Maður rifjar upp orðróminn sem maður heyrði og spurninguna: Ha, bíddu, virkar stjórnarskráin fyrir útlendinga? Já, það er í Bandaríkjunum sem þetta er flókið en ekki á Íslandi og hvað þá í mannréttindasáttmálanum sem við höfum skrifað undir og lögfest hérna. En meira um það seinna.

Forseti. Ef þú vildir vera svo væn að setja mig aftur á mælendaskrá væri það vel þegið.