Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[00:54]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það hefði verið gaman ef hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, sem rölti hér í gegnum þingsalinn með bros á vör, kæmi hingað inn og ræddi við okkur um það hvers vegna hún telur frumvarpið ekki brjóta í bága við hina ýmsu alþjóðlegu sáttmála sem gerðir hafa verið og við ýmis lög og stjórnarskrá. En þó svo að við séum bara í fimm mínútna ræðum virðist sem þingmenn meiri hlutans þori ekki að koma hingað upp og tala, sennilega vegna þess að þau vita upp á sig skömmina, vita að þau eru að reyna að setja lög sem stangast á við stjórnarskrá og stangast á við alþjóðlega sáttmála þvert á það drengskaparheit sem þau hafa farið með og þvert á þau þingskapalög sem við förum eftir. Það er virkilega slæmur bragur á því að slík vinnubrögð skuli vera viðhöfð af meiri hlutanum hér á Alþingi. Ef þessum lögum verður þrýst í gegn með harðræði meiri hlutans og virðulegs forseta þá sitjum við uppi með lög sem síðan verða kærð til dómstóla hér á landi og til Mannréttindadómstólsins, og ég frábið mér slíkt. Ég óttast að forseti og meiri hluti hv. þingmanna muni sitja uppi með það að hafa viljandi sett ólög í landinu þrátt fyrir ábendingar annarra hv. þingmanna og ábendingar allra umsagnaraðila. Ef það gerist ætla ég rétt að vona að það fyrsta sem þessir þingmenn og virðulegi forseti geri verði að viðurkenna að þau hafi tapað drengskap sínum og heiðarleika og að þau segi af sér hið snarasta. Ekkert annað væri siðferðislega rétt í lýðræðislegu ríki.

Virðulegi forseti. Enn stöndum við hér um miðja nótt og ræðum það hvernig frumvarp dómsmálaráðherra brýtur lög, brýtur stjórnarskrá og brýtur alþjóðlega sáttmála. Ef virðulegum forseta finnst vera farið að teygjast á umræðunni þá er það kannski vegna þess að það virðist vera alveg sama hversu nákvæmlega við tyggjum það ofan í þingmenn meiri hlutans hvernig þau séu að brjóta stjórnarskrá og alþjóðasáttmála virðast þau einfaldlega vera með lokuð eyru. Eitt af því stærsta sem einstaklingur getur gert, þegar hann hefur rangt fyrir sér, er að viðurkenna það. Að segja: Já, þetta var rangt, ég þarf að laga þetta. Já, heyrðu, það er grein sem þarf að bæta við til þess að börn njóti vafans eins og stendur í barnasáttmálanum. Nei, þingmenn stjórnarmeirihlutans láta allt slíkt sem vind um eyru þjóta og viðurkenna ekki að kannski hafi þetta farið aðeins of hratt í gegn, rétt eins og var með lög um loftferðir, rétt eins og gert var í stjórnskipunarlögum, ef ég man rétt, sem ég nefndi hér fyrr í dag eða í síðustu fundarstjórn; að hér hafi einfaldlega verið gengið aðeins of hratt um gleðinnar dyr. Ég skal lofa því að ef þingmenn meiri hlutans koma hér og viðurkenna mistök þá skal ég ekki erfa það við þá heldur hrósa þeim fyrir slíkt.

Virðulegi forseti. Ég komst ekki einu sinni að því sem ég ætlaði að ræða, bið vinsamlegast um að ég verði aftur settur á mælendaskrá.