Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:41]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að vitna í Pál Hreinsson. Í bókinni, varðandi árekstra og lagaskil á milli málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga og annarra laga, segir hann, með leyfi forseta:

„Þegar stjórnsýslulögin voru sett var í gildandi lögum að finna dæmi þar sem gerðar voru mun strangari kröfur til stjórnvalda en stjórnsýslulögin gerðu ráð fyrir. Það hefði verið skref aftur á bak að afnema þessi lagaákvæði með stjórnsýslulögunum. Af þeim sökum var mælt svo fyrir í 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga að þau lagaákvæði, sem hafa að geyma strangari reglur um málsmeðferð hjá stjórnvöldum en stjórnsýslulögin mæla fyrir um, haldi gildi sínu.

Og hér er vísað í álit umboðsmanns Alþingis frá árinu 1998:

„Umboðsmaður rakti ákvæði 2. mgr. grein 3.3.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992. Taldi hann rétt að skýra ákvæðið með þeim hætti að þar væri mælt fyrir um eins mánaðar lágmarksfrest vegna grenndarkynningar. Framangreint reglugerðarákvæði veitti því rýmri andmælarétt en leiða mætti af hinu almenna ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 18. gr., og gengi því framar þeim, sbr. 2. mgr. 2. gr. sömu laga.“

Virðulegur forseti. Ég veit að þetta hljómar samhengislaust, en haltu þér fast, hér kemur skýring:

„Framangreind löggjafarstefna, sem mörkuð var af stjórnsýslulögunum, hefur ekki aðeins þýðingu við skýringu ákvæða stjórnsýslulaga gagnvart ákvæðum eldri laga, heldur einnig gagnvart ákvæðum yngri laga. Á grundvelli hennar, svo þess markmiðs stjórnsýslulaganna að fækka sérákvæðum og auka lagasamræmi, standa veigamikil rök til þess að víkja ekki frá reglum stjórnsýslulaga með yngri löggjöf nema mjög veigamiklar ástæður mæli með því.“

Virðulegi forseti. Mér líður eins og ég geti bara „mækdroppað” hér og nú því að mér líður eins og þessi texti hafi komið punktunum mínum svo ótrúlega skýrt á framfæri. En ég ætla að setja þetta í mannlegra samhengi. Yngri lög, yngri sérreglur og sérlög varðandi hluti sem er nú þegar kveðið á um í almennum stjórnsýslulögum, þoka ekki fyrir stjórnsýslulögum. Almennar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaganna vega meira en yngri löggjöfin sem er sett og þar af leiðandi ákvæði sem eru í þessu útlendingafrumvarpi.

Virðulegi forseti. Nú er ég búin að fara í gegnum svo mikinn rökstuðning, í alvöru talað. Ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd fjallar ekki um þau atriði sem ég er búin að nefna hér í kvöld og aðrir þingmenn líka þá verð ég ótrúlega leið og ekki bara það heldur er það líka, ég veit það ekki, ógn við réttarríkið að einhver hafi fært fram svo ótrúlega veigamikil og skýr rök fyrir því að eitthvert lagaákvæði stenst ekki en meiri hlutinn eða hv. allsherjar- og menntamálanefnd kjósi að hunsa það einungis af því að þetta kemur frá þingmanni í minni hluta eða stjórnarandstöðu. Eins og ég segi, ég er að upplifa smá, ég veit ekki hvort rétta orðið er þórðargleði, en ég er búin að vera að rökstyðja þennan punkt í allt kvöld og nú loksins er ég komin með fræðilegar heimildir og líka álit umboðsmanns Alþingis til að rökstyðja sjónarmið mín eða ég er að rökstyðja sjónarmið hans, hvort tveggja virkar. En því tel ég mjög mikilvægt að hæstv. dómsmálaráðherra og meiri hluti hv. allsherjar- og menntamálanefndar taki þetta atriði til greina af því að það er ekki bara ég sem er að gera athugasemd við þetta heldur hafa aðrir þingmenn líka gert athugasemd við þetta og það voru líka gerðar þó nokkrar athugasemdir við þetta í umsögnum sem komu fram af hálfu umsagnaraðila sem voru sérfróðir aðilar, mannréttindasamtök eða viðeigandi stofnanir sem eru með sérfræðiþekkingu í þessum málaflokki. Eins og ég vék að áðan þá vita þingmenn ekki allt og það er bara allt í lagi. Þannig á þetta líka að vera, það væri rosalega skrýtið ef við værum með þingmenn sem vissu allt í öllum málaflokkum. Þá værum við ekki fulltrúar þjóðarinnar og fulltrúar almennings sem kýs okkur, heldur værum við gervigreind eða eitthvað.

Ég ætlaði að rökstyðja mál mitt enn þá frekar en ég held þá bara áfram í næstu ræðu og óska eftir að fara aftur á mælendaskrá, virðulegi forseti.