Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[02:57]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegur forseti. Fyrir þá sem voru að vakna er ég að fjalla um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og það er að gefnu tilefni því að öll fengum við að upplifa það hér í desembermánuði þegar margbrotið var á réttindum fatlaðs einstaklings sem flytja átti úr landi. Ég tel því mikilvægt að fara í gegnum nokkrar þær greinar sem fjallað er um í þessum samningi sem eiga við frumvarpið sem við erum að ræða hér í nótt.

14. gr. þessa samnings fjallar um frelsi og öryggi einstaklingsins og hún er í tveimur málsgreinum. Ég ætla að byrja á 1. mgr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra: a) njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis, b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.“

Í 2. mgr. segir, með leyfi forseta:

„Sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.“

Virðulegi forseti. Það þarf að tryggja viðeigandi aðlögun. Það þýðir ekki bara að lögreglan eigi að kaupa bíl sem getur tekið hjólastól, nei, þýðir svo miklu, miklu meira en það. Það þarf að aðlaga allt ferlið. Það sem meira er, eins og ég mun koma inn á síðar, þá á að taka sérstaklega fyrir mál þeirra sem eru með fötlun. Það er allt of oft sem stjórnvöld virðast gleyma svona réttindum sem samningar veita, rétt eins og varðandi það sem ég fór yfir fyrr í kvöld, að í barnasáttmálanum stendur að börn eigi ekki að líða fyrir gerðir foreldra sinna en samt sjáum við í c-lið 8. gr. frumvarpsins ekki tekið tillit þeirrar greinar barnasáttmálans.

Þetta er nokkuð sem við þurfum virkilega að bæta okkur í, forseti, að hér sé verið að setja lög og hér sé verið að skrifa frumvörp þar sem horft er til þeirra alþjóðasamninga og laga og stjórnarskrárinnar. Ég verð að segja að ég veit ekki hvað við þurfum að gera til þess að bæta þetta. Sú aðferð sem hingað til hefur verið notuð, að fela sérstakri deild, sem var innan forsætisráðuneytisins en er núna innan dómsmálaráðuneytisins, að fara yfir öll frumvörp virkar hreinlega ekki. Ég veit ekki hvað Alþingi getur gert í því en við þurfum virkilega að vera með aðhald gagnvart framkvæmdarvaldinu þegar kemur að þessum málum og tryggja að það sem kemur inn á borð hv. Alþingis sé ekki allt uppfullt af brotum á sáttmálum og stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Ég náði ekki að komast í 15. gr. þannig að ég óska eftir að komast aftur á mælendaskrá.