Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:03]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Aftur að ákvæðum stjórnsýslulaga en þetta þykir mér mjög mikilvægt að komi fram. Ég ætla bara að lesa þetta upp fyrir þig, virðulegi forseti, og síðan tökum við öll afstöðu til þessa texta saman. Með leyfi forseta:

„Við samningu lagafrumvarpa um efni á gildissviði stjórnsýslulaga vaknar oft sú spurning hvort árétta eigi ákvæði stjórnsýslulaga. Ef ekki er ætlunin að víkja frá þeim eða mæla nánar fyrir um málsmeðferð en fram kemur í ákvæðum stjórnsýslulaga, verður almennt að telja það óþarft. Slíkir löggjafarhættir geta jafnvel leitt til réttaróvissu þegar kemur að því að taka afstöðu til þess hvort ákvæðin verði skýrð til samræmis við ákvæði stjórnsýslulaga. Meginreglan hlýtur því að vera sú, að almennt beri að forðast tvítekningar í lögum.

Leiki aftur á móti vafi á hvort ákvæði stjórnsýslulaga gildi um meðferð mála, t.d. vegna óvissu um hvort tilteknar ákvarðanir skv. frumvarpi teljist stjórnvaldsákvarðanir, er það í samræmi við vandaða löggjafarhætti að eyða slíkri réttaróvissu með því að taka afstöðu til þess.

Umboðsmaður Alþingis vakti athygli á því í inngangi að skýrslu sinni fyrir árið 1995, að vegna þeirrar löggjafarstefnu, sem mörkuð hefði verið með stjórnsýslulögunum, og hér að framan var vikið að, væri mikilvægt að ekki væru settar sérreglur í lög, sem gerðu vægari kröfur til málsmeðferðar en leiddi af ákvæðum stjórnsýslulaga, nema veigamikil rök væru fyrir því. Almennt verður því að gera þær kröfur að útskýrt sé og rökstutt í athugasemdum við frumvörp annars vegar hvers vegna talin sé nauðsyn á því að gera vægari kröfur til málsmeðferðar stjórnvalda en fram komi í stjórnsýslulögum og hins vegar hvaða úrræði komi þá í staðinn í hlutaðeigandi frumvarpi til þess að tryggja réttaröryggi almennings.

Umboðsmaður Alþingis benti jafnframt á að þegar settar væru í lög reglur um málsmeðferð væri brýnt að tekin væri skýr afstaða til þess hvort verið væri (1) að víkja frá stjórnsýslulögum með vægari málsmeðferðarreglum, (2) mæla nákvæmar fyrir um málsmeðferð en gert væri í stjórnsýslulögunum eða (3) gera kröfur til stjórnvalda um vandaðri málsmeðferð en mælt væri fyrir um í stjórnsýslulögunum. Benti hann á að þetta yrði því miður ekki alltaf ráðið af lögum eða lögskýringargögnum, þegar settar hafa verið reglur um málsmeðferð síðustu ár. Slíkir löggjafarhættir væru til þess fallnir að valda deilum við lögskýringar og erfiðleikum við stjórnsýslu.“

Í guðanna bænum, forseti. Ef þið hlustið ekki á mig, hlustið á Pál Hreinsson. Hann veit hvað hann er að segja. Hann er reyndur maður sem hefur mikla reynslu á sviði stjórnsýslulaga, hefur starfað við það svið, hefur verið lagaprófessor og hæstaréttardómari og er nú forseti EFTA-dómstólsins og skrifaði bara bestu bók í heimi. Ég er í alvörunni að njóta þess að lesa úr þessari bók, bæði þegar ég sit út í sal og er að bíða eftir að koma upp í ræðu og líka hér upp í pontu. Hérna er bókstaflega verið að vara okkur við hvað gerist ef tvö sambærileg ákvæði í mismunandi lagabálkum stangast á. Þá þarf að uppfylla ákveðin skilyrði sem ég var að reifa hér núna og síðan taka afstöðu til þess hvort ákvæðið ætti að nota fremur til þess að eyða þessari réttaróvissu sem þetta mun hafa í för með sér.

Virðulegi forseti. Mér þykir bara mjög ólíklegt að hæstv. dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson, hafi hugsað út í einhvers konar réttaróvissu sem frumvarp hans mun hafa í för með sér. Hann er ekki búinn að hugsa lengra en það að ná þessu frumvarpi í gegnum þingið og það verði að lögum — og síðan hvað? Hvað gerist ef þessum lögum verður beitt í framkvæmd? Hvað gerist þegar fyrsta málið fer fyrir dómstóla, bæði innan lands og hjá Mannréttindadómstól Evrópu? Hvað gerist? Á ég þá að koma aftur upp í pontu og segja: Hey, ég sagði ykkur það, stjórnarandstaðan sagði ykkur það, umsagnaraðilar sögðu ykkur það? Nei, það vill enginn að þetta gerist, virðulegi forseti. Við erum að reyna að forðast þann áfellisdóm sem okkar bíður ef við samþykkjum þessi lög. Ég get farið nánar út í það og ég mun gera það í næstu ræðu hvernig einstaka ákvæði geta stangast á við núgildandi ákvæði í almennum stjórnsýslulögum þegar kemur að málsmeðferðarreglum stjórnvalda. Ég get líka bara skrifað skýrslu um þetta, bara eins lengi og það verður hlustað og að nefndin taki alla vega efnislega umfjöllun um það sem ég hef verið að reifa hér í kvöld. — En tími minn er á þrotum og ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.