Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 59. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[03:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Áfram af breytingasögu útlendingalaga frá gildistöku þeirra í byrjun árs 2017. Breytingasagan nær náttúrlega tveim vikum fjær okkur því að fyrstu lög um breytingu á lögum um útlendinga voru samþykkt hér rétt fyrir jól 2016. Þar var um að ræða bráðabirgðaákvæði þess efnis að kæra frestaði ekki réttaráhrifum þar sem Útlendingastofnun hefði metið umsóknir bersýnilega tilhæfulausar og frá öruggum ríkjum. Síðan, eins og ég sagði, þá mætti nýskipaður dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, með frumvarp fljótlega eftir áramót 2017, sem varð að lögum nr. 17/2017, þar sem tvenns konar breytingar voru lagðar til. Fyrri breytingin snerist um að festa í sessi efni bráðabirgðaákvæðisins sem var bætt við lögin með lögum nr. 125/2016 sem voru samþykkt rétt fyrir jólin. Það ákvæði felur í sér að kæra á brottvísun útlendings sem sótt hefur um alþjóðlega vernd frestar ekki réttaráhrifum hennar hafi Útlendingastofnun metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og einstaklingurinn kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki.

Hin breytingin var fyrsta leiðréttingin. Við eigum eftir að sjá þegar við förum yfir breytingasöguna að það hefur verið dálítið um leiðréttingar sem er kannski eðlilegt þegar verið er að heildarendurskoða stóran lagabálk. Það er ekkert óeðlilegt að kannski á fyrsta árinu, þegar reynsla kemst á framkvæmdina, þurfi að snikka aðeins til, að þá hafi einhverjar villur slæðst inn í breytinguna og að sjálfsögðu er bara jákvætt að grípa hratt inn í þar. En þessi síðari breyting frumvarpsins, sem varð að lögum nr. 17/2017, stafaði af því að í 2. mgr. 70. gr. laganna höfðu orðið þau mistök að hjúskapur og sambúð voru lögð að jöfnu sem skilyrði fyrir umsókn um dvalarleyfi hvað tímalengd varðar. Þar með þrengdist ramminn fyrir fólk að sækja um dvalarleyfi og það var ekki meiningin þegar þessi heildarlög voru samþykkt á sínum tíma, þannig að þarna þurfti að laga. Ég hef stundum kallað þetta „track changes“-villu af því að ég held að hún hafi orðið til þannig að þetta var einhver breyting í Word-skjali sem var með svona breytingartillögum þar sem þurfti að samþykkja sumar og hafna öðrum og það hafi einfaldlega bara verið ýtt á vitlausan hnapp og enginn tekið eftir því í þessu heildarlagaendurskoðunarbixi öllu.

En eins og hæstv. forseti sér af þessu og rekur kannski minni til, af því að hann var nú, að mig minnir, þátttakandi í þessari umræðu á sínum tíma, þá eru þetta eðlisólíkar breytingar, enda voru umræðurnar þannig að við sem mynduðum minni hluta allsherjar- menntamálanefndar á sínum tíma, sem vorum þá fulltrúar Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna, studdum þessa leiðréttingu varðandi síðari breytingu frumvarpsins, enda hafði óvart verði stigið skref til þrengingar sem ekki stóð til að stíga. En við undirstrikuðum varðandi það að það væri mikilvægt að kanna hvort ákvæðið hefði haft áhrif á umsóknir einhverra einstaklinga og jafnvel leitt til brottvísunar eða að umsóknum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hefði verið hafnað. Og hefði svo verið þá þyrfti að rétta hlut þeirra sem fyrir hefðu orðið. Þannig að við studdum þennan hluta, en varðandi hinn hlutann þá verð ég að taka mér tíma síðar til að fara aðeins yfir hann.