Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

sala á flugvél Landhelgisgæslunnar.

[10:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er orðið alveg ótrúlegt mál og ég trúi ekki öðru en að þingið taki fram fyrir hendur ráðherra. Það er náttúrlega fáránlegt að vísa í notkun á hverju ári eða á hvern klukkutíma á ári, alveg óháð því hvers eðlis starfsemin er. Sum starfsemi er þess eðlis að þar er unnið frá morgni til kvölds, jafnvel allan sólarhringinn, og þarf að vera. Önnur starfsemi lýtur bara allt öðrum lögmálum. Í fyrsta lagi væri hægt að tryggja Landhelgisgæslunni miklu meiri notkun á þessari vél til mikilvægra verkefna ef við veittum fjármagn. Þar fyrir utan er þetta bara starfsemi þess eðlis að hún þarf að vera til staðar óháð notkun. Fjölskylda fer ekki að selja frá sér reykskynjarana vegna þess að það hefur aldrei kviknað í. Ef við berum þetta saman við ýmislegt annað, erum við þá ekki að fara að undirbúa byggingu á stórum íþróttaleikvangi? Það er ekki verið að nota völlinn marga klukkutíma á ári en samt getur reynst nauðsynlegt að byggja hann. Það þarf að hindra þessar vitlausu hugmyndir hæstv. dómsmálaráðherra.