Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[11:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Síðasta umsögnin sem ég ætla að renna yfir aðalatriðin í, ég þarf greinilega að fara í umsagnirnar í smáatriðum síðar, er umsögn Rauða kross Íslands. Rauði krossinn gagnrýnir ítrekaðan skort á samráði og samtali við aðila sem starfa í málaflokknum og hafa til þess sérþekkingu og reynslu við gerð frumvarpsins. Ég hef orðið var við það í samfélagsumræðunni að einhverjir treysti ekki Rauða krossinum til að sinna þessari þjónustu, gera það með einhvers konar lögfræðingahætti, alls konar, en á sama tíma held ég að sömu aðilar treysti Rauða krossinum til allra annarra verka sem Rauði krossinn sinnir, sem er rosalega kaldhæðnislegt. Eru kannski einhverjir fordómar í gangi þar? Ég ætla að giska á að það sé alla vega í grennd við það, af því að það er nákvæmlega þessi hópur fólks sem er að leita sér að alþjóðlegri vernd, útlendingar, sem er yfirleitt fyrsti hópurinn sem verður fyrir aðkasti og fordómum í öllum löndum heimsins. Þetta er auðveldasti hópurinn til að útskúfa á einhvern hátt. Þess vegna er svo mikilvægt að standa vörð um mannréttindi þeirra, því að það fer nákvæmlega út í þessa klassísku sögu: Fyrst komu þau og náðu í þennan hóp, svo komu þau og náðu í næsta hóp þangað til enginn var eftir til að standa vörð mín réttindi. Þetta eru grundvallarmannréttindi sem verið er að tala um hérna og þegar á reynir er oft erfiðast að standa vörð um réttindi fólks. En þá er það líka mikilvægast, langmikilvægast, því að þar er byrjað að kroppa í réttindin með því að ýta undir einhvers konar hræðslu eða fordóma, einhvers konar við/þau-orðræðu sem býr einmitt til ákveðna ofsareiði sem við sáum grassera í Evrópu á síðustu öld með virkilega slæmum afleiðingum.

Kjarninn í því vandamáli liggur í því að verja mannréttindi þessa hóps og það er það sem Rauði krossinn hefur gert undanfarin ár og hefur gert mjög vel þangað til dómsmálaráðherra, sá sem sem hendir núna flugvél úr landi og vopnar lögregluna með rafbyssum án þess að tala við kóng eða prest, segir upp þessum samningi við Rauða krossinn og var ekki með neina lausn um hvað ætti að gera í staðinn. Það er bara farið í einhverja útselda vinnu hjá einhverjum einstaka lögfræðingum hingað og þangað sem Útlendingastofnun og ráðuneytið í rauninni kvitta bara upp á og segja: Þetta er fínn lögfræðingur fyrir okkur. Er það fínn lögfræðingur fyrir þá sem eru að leita sér að vernd? Ekki hugmynd, en það er alla vega ekki á sömu forsendum og Rauði krossinn rak þá þjónustu þar sem hafði byggst upp gríðarleg þekking á þessum málaflokki. Þannig að það þarf að hlusta þegar Rauði krossinn er að tala í þessu máli því að þau vita hvað þau eru að tala um.

Þau byrja á að tala um sjálfkrafa kæru, sem er 2. gr., og Rauði kross á Íslandi leggst gegn þessu af tveimur ástæðum. Annars vegar eru ákvarðanir Útlendingastofnunar birtar umsækjendum á íslensku, yfirleitt 10–20 bls., og ekki þýddar á önnur tungumál. Ákvörðunin er send talsmanni umsækjenda sem þarf í kjölfarið að bóka fund með viðkomandi og túlki sem oftast er ekki hægt að gera samdægurs. Þarna fáum við innsýn í það hvað þarf í raun og veru að gera til að framfylgja þeim lögum sem er verið að setja hérna. Það eru svona smáatriði hér og þar, þar sem einhver þarf að taka blaðið, krossa í, skrifa undir, passa að það berist annað, þýða það yfir á önnur tungumál. Allur pakkinn er rosalega flókinn og fyrirferðarmikill af því að þetta er fólk með alls konar bakgrunn sem kemur frá fullt af löndum og er með alls konar ástæður fyrir því að það telur sig eiga rétt á alþjóðlegri vernd. Það er ekkert lítið að fara yfir og það er ekkert smáræðisferli sem fer af stað til þess að tryggja að þau sem fá vernd séu alveg örugglega hennar verðug. Það er nálarauga. (Forseti hringir.) — Ég held áfram með yfirferð á þessari umsögn í næstu ræðu, ef forseti vildi vinsamlega setja mig á mælendaskrá.