Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[13:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég var að fara yfir svör dómsmálaráðuneytisins við þeim athugasemdum sem bárust frá Rauða krossinum við 7. gr. frumvarpsins sem afnemur grundvallarréttindi flóttafólks til að fá mál sitt endurupptekið ef ný gögn eða breyttar forsendur gefa tilefni til þess. Ég ætla bara að lesa þetta hérna upp, mér finnst þetta svo skemmtilega orðað hjá ráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Þá vísar RKÍ til þess að þröskuldurinn fyrir endurupptöku mála samkvæmt stjórnsýslulögum sé „talsvert lægri“ en til þess að fá ákvörðun endurskoðaða skv. 7. gr. frumvarpsins og að „engin skilyrði“ séu gerð í 24. gr. stjórnsýslulaga um sýnilega auknar líkur til að fallist sé á beiðni um endurupptöku. Ráðuneytið fær ekki séð að þessar fullyrðingar samtakanna standist enda segir skýrum orðum í 24. gr. stjórnsýslulaga að atvik þurfa að hafa breyst „verulega“ frá því að ákvörðun var tekin til að aðili eigi rétt á að mál sé tekið til meðferðar á ný.“

Ég ætla að staldra aðeins við hér því að síðan förum við út í aðeins annað. Þetta vekur upp spurninguna: Af hverju er þá verið að breyta þessu? Ef þröskuldurinn er sá sami að mati ráðuneytisins, ef hann er svona hár fyrir og þetta breytir engu, hvers vegna er þá verið að breyta þessu? Hvers vegna er verið að færa þetta yfir í þetta þrönga ferli þar sem formaður kærunefndar útlendingamála getur t.d. úrskurðað um þetta einn og að að jafnaði skuli slíkri umsókn vísað frá, það er meginregla, beiðni um endurupptöku yrði vísað frá, nema eitthvað. Ef þetta breytir engu, eins og ráðuneytið virðist vera að halda fram hér, þá er erfitt að átta sig á því hvers vegna verið er að breyta þessu. En við vitum auðvitað hvers vegna verið er að breyta þessu. Það er vegna þess að þetta mun skerða réttaröryggi flóttafólks, fækka beiðnum um endurupptöku, fækka beiðnum um endurupptöku sem verða samþykktar, ekki af því að færri mistök verða gerð í meðförum Útlendingastofnunar og kærunefndarinnar. Nei. Ekki vegna þess að frestir munu síður líða. Nei. Vegna þess að þannig verður búið um hnútana að í raun er búið að loka öllum dyrum. Í raun er búið að flækja kerfið þannig að það er engin leið fyrir umsækjanda til að fá mál endurupptekið jafnvel þó að hann ætti að eiga rétt á því.

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Ráðuneytið ítrekar að með ákvæðinu er verið að hverfa frá núverandi framkvæmd um endurupptökubeiðnir á grundvelli stjómsýslulaga og færa þess í stað inn í lögin sérstaka málsmeðferð sem hefur verið sniðin að málaflokknum að fyrirmynd annarra Evrópuríkja.“

Þarna verð ég að staldra við. Þetta er beinlínis rangt. Það sem er að fyrirmynd annarra Evrópuríkja í þessu ákvæði er það að í lögunum sé sérstakt ákvæði um endurteknar umsóknir. Við erum ekkert að tala um endurteknar umsóknir hérna. Við erum að tala um beiðnir um endurupptöku á sama málinu. Þetta er ekki sami hluturinn vegna þess að það að fá mál endurskoðað er grundvallarregla. Þarna er því verið að slá ryki í augu almennings og hv. þingmanna með því að láta eins og þetta sé svona í öðrum Evrópuríkjum. Mér hefur reyndar gengið illa að fá skýrar upplýsingar um það nákvæmlega hvernig þessu er háttað í öðrum Evrópuríkjum utan Norðurlandanna en það er alveg ljóst að stjórnsýslulögin og íslenskur stjórnsýsluréttur byggir á mjög sterkri norrænni stjórnsýsluhefð.

Það er raunar frægt í Evrópu að Norðurlöndin halda fast í þessi stjórnsýslulög sín og þessi réttindi borgaranna í samskiptum við stjórnvöld. Þegar ég var í tíma í náminu mínu í Belgíu var einhver prófessor að útskýra hvernig Evrópusambandið virkar og hvernig það tekur ákvarðanir. Ég spyr: Af hverju eru þessar ákvarðanir leynilegar? Og hann spyr á móti: Ertu frá Norðurlöndunum? Mér fannst það segja svolítið mikið. Já, ég er frá Norðurlöndunum. Ástæðan fyrir því að honum fannst það augljóst var sú að ég var svo meðvituð um réttindi borgaranna. Ég ætla að klára þessa tilvitnun, mér sýnist ég hafa tíma til þess, með leyfi forseta:

„Áætlað er að skýrari reglur og samræmt verklag við önnur Evrópuríki varðandi endurskoðun og endurupptöku á málum umsækjenda um alþjóðlega vernd auki skilvirkni innan umsóknarkerfisins en tryggi samt sem áður rétt þeirra til að fá ákvarðanir í málum sínum skoðaðar á grundvelli nýrra gagna og/eða upplýsinga.“

Ég óska eftir að verða sett aftur á mælendaskrá.