Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Hér fyrr í dag hélt ég áfram að fara yfir breytingasögu útlendingalaganna vegna þess að mér finnst dálítið mikilvægt að við skoðum hvernig viðhorf þingheims til þessa lagabálks hafa þróast á síðustu árum, á þessum sex árum sem liðin eru frá því að lögin tóku gildi. Það er æðimargt við fyrstu breytingarnar sem væri næstum hægt að fara að kalla venjuhelgaða framkvæmd hér á þingi.

Nú langar mig að halda aðeins áfram að tala um frumvarp það sem varð að lögum nr. 17/2017, sem Alþingi samþykkti sem lög í apríl það ár. Þarna voru rétt rúmir þrír mánuðir liðnir frá gildistöku laganna og þá var stigið skref aftur á bak hvað varðar möguleika flóttafólks til að áfrýja málum sínum með því að sett var inn í lögin að kæra í slíkum tilvikum frestaði ekki réttaráhrifum, sem sagt að það megi brottvísa fólki ef Útlendingastofnun hefur metið umsóknina bersýnilega tilhæfulausa og viðkomandi kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg upprunaríki. Bæði þessi hugtök eru mjög vandmeðfarin og mjög loðið hvernig Útlendingastofnun skilgreinir og beitir þeim.

En það sem mig langaði að tala um, varðandi framkvæmd þingsins á þessu máli, var hvernig meiri hlutinn fjallaði um málið og fékk á sinn fund þann helming umsagnaraðila sem var sammála ráðherranum í því að þrengja ætti þennan rétt flóttafólks. Umsagnaraðilarnir sem sögðu að það ætti ekki að gera þetta, sem voru Lögmannafélag Íslands, No Borders Iceland og Rauði krossinn á Íslandi, fengu ekki boð á fund allsherjar- og menntamálanefndar og maður sér ekki á umfjöllun meiri hluta nefndarinnar að þau hafi tekið sérstaklega mikið mark á því sem þar kom fram. Þetta er náttúrlega það sem við erum farin að sjá æ ofan í æ þegar fjallað er um þessi mál, t.d. í því frumvarpi sem við erum með hér til umfjöllunar, að ýmsir aðilar, þar á meðal sumir þeirra sem ekki fengu áheyrn 2017, skila inn umsögnum, rökstyðja þær vel, benda á alþjóðasamninga, benda á það að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kalli eftir þessu eða hinu en svo er bara ekkert hlustað á það.

Varðandi það að kæra fresti ekki réttaráhrifum þá bendir Rauði krossinn einmitt á að þetta sé eitthvað sem Rauði krossinn ásamt Flóttamannastofnun hafi lagt nokkuð hart að stjórnvöldum að halda dálítið sterku inni í lögum. Rauði krossinn á þessum tíma, við erum að tala um 2017, ítrekaði við þingið, með leyfi forseta, „… margnefnda tillögu félagsins um að kæra fresti réttaráhrifum sjálfkrafa í öllum málum er varða umsókn um alþjóðlega vernd …“. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að þetta væri eitthvað sem Rauði krossinn hélt þarna á lofti og hafði ásamt Flóttamannastofnun ítrekað rætt við ráðuneytið var ekki orðið við þessu. Þarna var lagður jarðvegur að þeirri framkvæmd sem því miður tíðkast í þessum málum innan þingnefnda og þarna var líka sleginn tónninn fyrir það að flestar þær breytingar sem orðið hafa á þessum lögum frá því að þau voru samþykkt 2016 hafa verið neikvæðar.