Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 60. fundur,  3. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Nú erum við komin að spennandi hlutanum í sögunni af frumvarpi því sem varð að lögum nr. 81/2017, þeim kafla sögunnar þegar Sjálfstæðisflokkurinn, sem við héldum að væri samkomulag við um að vera ekki með miklar mótbárur við frumvarpið sem myndi skjóta skjólshúsi yfir ákveðinn hóp barna á flótta, snerist gegn því samkomulagi þarna á lokametrunum og lagði fram minnihlutaálit úr allsherjar- og menntamálanefnd sem var eiginlega með miklum ólíkindum vegna þess að þar er farið mikinn í því að dylgja um mögulegar afleiðingar þeirrar lagabreytingar sem um var að ræða. Það er ýjað að því að lagabreytingin geti einhvern veginn ýtt undir mansal og smygl á börnum og vísað í tölur hjá Europol varðandi það að fjöldi flóttabarna væri týndur í Evrópu; allt saman mjög alvarleg atriði en ekki það sem þetta mál fjallaði um. En Sjálfstæðisflokkurinn, af sinni alkunnu smekkvísi, ákvað að segja að það væri erfitt að sporna við því að flökkusögur færu á kreik um að það væri auðveldara að fá hæli hér á landi en áður og þá gæti skipulögð glæpastarfsemi farið að kynda undir þá túlkun þannig að það yrði einhver svona innflutningsbransi á börnum til að fá alþjóðlega vernd hér á landi. Það leiddi ekki til mjög fallegra umræðna hér inni á þingi en þegar upp var staðið var töluverður meiri hluti fyrir breytingunni sem lögð var fram af formönnum sex stjórnmálaflokka hér á þingi. Það var bara einn flokkur sem snerist gegn þessu, greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, greiddi atkvæði gegn því að Mary og Haniye og nokkrir tugir annarra barna í svipaðri stöðu fengju áheyrn hjá stjórnvöldum.

Þá langar mig kannski að vitna í atkvæðaskýringu frá fulltrúa Vinstri grænna við lokaafgreiðslu málsins hér 27. september 2017, þegar Katrín Jakobsdóttir sagði, með leyfi:

„Þegar framkvæmd laga sem varðar fólk í sérstaklega viðkvæmri stöðu, börn, hefur það í för með sér að réttlætiskennd jafn margra er misboðið, þá er ástæða til að hlusta. Þegar UNICEF og Rauði krossinn biðja okkur að hlusta er ástæða til að hlusta, hlusta og velta því fyrir sér hvort við séum að framfylgja lögum sem eiga að byggjast á mannúð með þeim hætti sem við eigum að gera þannig að þau uppfylli skyldur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við höfum undirgengist. Það er nefnilega ástæða til að hlusta og velta því fyrir sér. Það er niðurstaðan sem fulltrúar sex flokka af sjö hér á Alþingi komust að, að það væri ástæða til að hlusta. Ég velti því fyrir mér hvort fulltrúar þess flokks sem ekki kýs að styðja þessa breytingu ættu ekki að hlusta. Ég segi já við þessari breytingu.“

Þetta sagði þáverandi hv. þm. Katrín Jakobsdóttir. Þessi klausa um að þurfa að velta fyrir sér hvort við séum að framkvæma lög þannig að þau uppfylli skyldur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga kannski sérstakt erindi inn í umræðuna um það frumvarp sem við ræðum hér í dag vegna þess að þar eru verulegar efasemdir um að þær skyldur séu uppfylltar. Það eru töluverðar líkur á því að lagt sé upp með breytingar sem muni skerða rétt barna á flótta. (Forseti hringir.) Ég vona að hæstv. forsætisráðherra sem nú er rifji upp afstöðu sína frá september 2017, þó það væri ekki nema bara til þess að fá hæstv. barnamálaráðherra til að hlusta og mæta alla vega í salinn og tala við okkur um þetta.