Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2023.

Störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Móttaka hælisleitenda er komin í ógöngur. Til landsins streyma rúmlega 500 manns í hverjum mánuði og fer fjölgandi. Sveitarfélögin eru komin að þolmörkum. Reykjanesbær neitar að taka við fleirum. Félagsþjónustan og skólarnir eru að sligast undan álagi. Heilbrigðiskerfið er yfirfullt. Ísland veitir bestu þjónustuna í Evrópu fyrir hælisleitendur og er með veikustu löggjöfina. Þess vegna streymir hingað fólk langt umfram það sem við ráðum við. Engan skal undra að hlutfallslega tökum við á móti margfalt fleirum hælisleitendum en Norðurlöndin. Dæmi: 1.200 manns komu hingað frá Venesúela á síðasta ári. Í Noregi voru þeir 80.

Herra forseti. Það er brýnt að Alþingi færi lögin um útlendinga til samræmis við það sem gerist meðal nágrannaþjóða okkar. Við þurfum að læra af reynslu þeirra í málaflokknum og til þess eru vítin að varast þau. Alþingi hefur verið tekið í gíslingu af Pírötum, sex þingmönnum sem vilja galopin landamæri. Reyndar verður ekki séð að nokkur munur sé á málflutningi Samfylkingar og Viðreisnar hvað þetta varðar.

Herra forseti. Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti. Óbreytt löggjöf í útlendingamálum leiðir okkur í ógöngur. Útlendingamálin verða að taka mið af smæð þjóðarinnar.