Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það er mikilvægt að gleðjast þegar vel gengur. Nú á dögunum bárust okkur jákvæðar fréttir af umhverfismálum sunnan úr Evrópu þar sem framkvæmdastjórn Evrópu tók dálítið mikilvægt skref í þágu náttúrunnar. Þar var ákveðið að það væri fullreynt með að vinna úrbætur á alþjóðaorkumálasáttmálanum, The Energy Charter Treaty, með leyfi forseta, sem framkvæmdastjórnin komst að að væri öflugt verkfæri til að grafa undan loftslagsaðgerðum innan ESB. Þessum sáttmála var komið á í kjölfar loka kalda stríðsins. Þetta var hugsað sem verkfæri til að hjálpa vestur-evrópskum ríkjum að fara inn í austurhluta álfunnar og fjárfesta þar, m.a. í uppbyggingu orkuinnviða. En vegna þess að skilningur fólks á því hvernig samfélög ættu að vera rekin var dálítið ólíkur á milli Austur- og Vestur-Evrópu á þessum tíma voru sett inn alveg ofboðslega sterk verkfæri í formi gerðardóms sem getur skorið úr um alls konar ágreining á milli fyrirtækja og ríkisstjórna, sem hljómaði kannski eins og góð hugmynd á þeim tíma en hefur í seinni tíð verið misnotað af t.d. mengandi olíurisum til að fara í mál við evrópskar ríkisstjórnir þegar þær eru að stíga góð skref í loftslagsmálum. Hollenska ríkið stendur t.d. í stappi vegna málaferla af því að það ætlar að fasa út kolum í sinni orkuframleiðslu. Ítalska ríkið er að rífast við einhverja olíubaróna um það að Ítalía vilji banna olíuleit í Adríahafi. Evrópusambandið er búið að átta sig á því að það er tímaskekkja að vera með alþjóðaverkfæri sem þjónar mengandi stórfyrirtækjum (Forseti hringir.) í þeim eina tilgangi að græða pening og fremja vistmorð. Ég vona að íslenska ríkisstjórnin fylgi fordæmi kollega sinna í Evrópu (Forseti hringir.) og dragi Ísland út úr þessum skaðræðissáttmála sem fyrst.