Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Síðast þegar ég tók til máls í störfum þingsins fjallaði ég um mikilvægi grunninnviða og að þeir myndu leika fjölþætt hlutverk í að tryggja öryggi, hagvöxt og grundvöll byggðar almennt. Ég ætla að halda áfram með það og kannski þá leggja áherslu á orðið sóun. Ef þessir innviðir eru ekki í lagi þá skapar það gríðarlega sóun í okkar samfélagi. Frá því að ég hélt þessa ræðu hefur komið í ljós bilun á rafstreng til Vestmannaeyja sem gerir það að verkum að ekki er hægt að flytja nægilegt rafmagn þangað. Það leiðir af sér að nú þarf, til að hægt sé að sinna raforkuþörf Vestmannaeyja, að hafa þar gríðarlega mikið af varaafli sem er keyrt með dísilvélum. Þá erum við búin að sóa árangri okkar í loftslagsmarkmiðunum og við erum að sóa miklum fjármunum, en þar er að hefjast þessa dagana vinnsla eftir uppsjávarveiðar sem þarf þá að knýja áfram með olíu eftir að búið var að fjárfesta í rafknúnum frystingum og bræðslum. Þar kemur því enn og aftur sóunin. Meðan innviðirnir eru ekki í lagi sem við þurfum að huga að og byggja gríðarlega mikið upp, erum við að sóa hér tækifærum til að byggja upp öflugra velferðarsamfélag og bæta okkar umhverfi í loftslagsmálum.