Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

sjávarútvegsmál.

[16:08]
Horfa

Hermann Jónsson Bragason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ingu Sæland, fyrir þessa þörfu umræðu. Jafnframt vil ég þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að vera með okkur hér í dag. Ég starfaði sem sjómaður til 40 ára. Ég upplifði á ferli mínum áhrif kvótakerfisins og hvernig það færði eigendum kvótans mikil auðæfi en af þeim skilaði sér ekkert til okkar sjómanna. Ég kem frá Stykkishólmi. Þar störfuðu áður fjórar útgerðir en í dag er aðeins ein eftir. Svipaða sögu er að segja um fjölmargar sjávarbyggðir víðs vegar um land. Kvótinn er hverfull og ákvörðun útgerðareigenda um hvort kvótinn skuli seldur, leigður eða skipin flutt getur haft mikilvæg áhrif á atvinnulíf í sjávarbyggðum. Svarið við þessu ástandi liggur í augum uppi: Við þurfum að efla strandveiðar og stuðla að því að fólk fái að stunda sjálfbærar handfæraveiðar. Strandveiðar ógna ekki lífríki sjávar eða stærð fiskstofnanna. Það á að bæta við strandveiðar og byggðakvóta, ekki taka þær af.