153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

peningamarkaðssjóðir.

328. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um peningamarkaðssjóði. Frumvarpið felur í sér innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins 2017/1131 frá 14. júní 2017, um peningamarkaðssjóði, í íslenskan rétt. Meginefni frumvarpsins er því lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um hvernig eftirlit fari fram, um eftirlitsheimildir lögbærra yfirvalda, aðfararhæfi ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins o.fl.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Af umsögnum sem bárust nefndinni er ljóst að ágreiningur er um það hvort hér á landi séu reknir sjóðir sem falli undir skilgreiningu reglugerðarinnar á peningamarkaðssjóði. Bendir nefndin á að á þessu er sérstaklega tekið í áhrifamati í greinargerð frumvarpsins en talið er að langtímaáhrif á aðila sem reka sjóði sem kunna að falla undir skilgreininguna séu afar takmörkuð.

Nefndin leggur til að a-liður 1. töluliðar og 2. töluliðar 17. gr. falli brott þar sem samhljóða breytingar voru gerðar á lögum um verðbréfasjóði og lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða með lögum nr. 128/2022. Hér er um að ræða tvö ákvæði sem varða skyldu annars vegar rekstraraðila sérhæfðra sjóða og hins vegar rekstrarfélaga verðbréfasjóða til að útbúa eða útvega lykilupplýsingaskjal samkvæmt þeim lögum sem um aðilana gilda.

Þá eru lagðar til minni háttar eða lagatæknilegar breytingar sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar. Vísast að öðru leyti til ítarlegrar umfjöllunar um breytingartillögur í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir álit meiri hlutans rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.