153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

ríkisfjármál.

[10:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var ekki að spyrja um greinargerð ríkisendurskoðanda frá 2020, eins og ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi vitað. Ég var að spyrja um skýrsluna sem hann fékk senda árið 2018, upprunalegu skýrsluna um Lindarhvol sem einhverra hluta vegna hefur ekki enn fengist birt þrátt fyrir að forsætisnefnd Alþingis sé búin að álykta formlega um að það eigi að birta hana. Hvernig stendur á því? Hefur hæstv. fjármálaráðherra á einhvern hátt beitt sér gegn birtingu skýrslunnar?

Varðandi ríkisútgjöldin þá nefnir hæstv. fjármálaráðherra hér nokkur atriði því til afsökunar hversu mikið ríkisútgjöld hafi aukist á pappír en þau hafa aukist á heildina litið, alveg gríðarlega. Þó að afsakanir hæstv. ráðherra séu gildar svo langt sem þær ná þá hafa útgjöld ríkisins þotið upp í tíð þessarar ríkisstjórnar og það hlýtur að hafa áhrif á verðbólgu, nema þessi ríkisstjórn starfi í einhverju hagfræðilegu tómarúmi.