153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

ríkisfjármál.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef nú bara vanist því að í sérhverju máli sem ríkisendurskoðandi tekur til skoðunar sé gefin út ein skýrsla og það sem hv. þingmaður kallaði skýrslu frá 2018 var eins konar skilagrein eða greinargerð þess sem hafði verið settur ríkisendurskoðandi. Skömmu eftir að hann skilaði af sér með greinargerð hingað til þingsins og til ríkisendurskoðanda m.a. og með afriti í fjármálaráðuneytið þá brást ríkisendurskoðandi við og sagði: Ég hef móttekið þessi gögn, ég mun vinna áfram með þessi gögn. Í framhaldinu kom út endanleg skýrsla. Það er það sem gerðist. Ég veit ekki hvað ég get sagt mikið meira um það mál í sjálfu sér. En ég get fallist á það með hv. þingmanni að ríkisútgjöldin hafa vaxið töluvert vegna þess að hér á Alþingi er enginn áhugi á neinu nema ríkisútgjöldum og til vaxtar. [Hlátur í þingsal.] Öll umræðan um fjárlögin er um skort á ríkisútgjöldum. Öll umræða … [Frammíköll í þingsal.] 99% af umræðunni, 99% eru um það. Samfylkingin sérstaklega talar alltaf um vanfjármagnaðar ríkisstofnanir, vill meiri útgjöld. [Frammíköll í þingsal.] Meiri útgjöld. (Forseti hringir.) Það hefur jú yfir tíma — meira að segja hv. þingmaður sem ber fram fyrirspurnina segir að við eigum enn eftir að efna (Forseti hringir.) stórkostleg loforð í almannatryggingum sem mun kosta tugi milljarða. (Gripið fram í: …kenna öðrum um.)

(Forseti (BÁ): Forseti ítrekar að ræðutíminn er takmarkaður og biður hv. þingmenn og ráðherra að virða það. Eins bendir forseti á að aðeins einn hefur orðið í einu þegar ræða er flutt hér í þinginu. )