153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

fjármögnun háskólastigsins.

[11:11]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Hún fór yfir mjög margt á sviði háskólamála sem ég ætla að reyna að bregðast við. Fyrst kannski almennt um fjármögnun háskólastigsins á Íslandi. Fjármögnun háskólastigsins á Íslandi hvílir á gömlu reiknilíkani sem var mikið framfaraskref árið 1999 og stendur til að endurskoða. Ég hef sett þá endurskoðun í algjöran forgang til að ná betri árangri einmitt í því sem hv. þingmaður kemur inn á, hvort sem það er að gæta að auknum fyrirsjáanleika og auka gagnsæi fjármögnunar; mennta betur í þeim greinum sem virkileg þörf er á í samfélaginu, hvort sem litið er til heilbrigðismenntunar eða STEM-greina; að styðja betur við nemendur; að auka fjarnám o.s.frv. Við erum að vinna að breyttu deililíkani eða fjármögnunarlíkani háskólanna. Við erum auðvitað með mjög opið háskólakerfi og þegar við berum okkur saman við löndin í kringum okkur þurfum við að taka það inn í myndina. Við erum núna að vinna betri gögn um samanburð háskólanna á Norðurlöndunum og hér á landi. Þá er ekki einungis hægt að taka saman fjármögnun á hvern nemanda þar sem við höfum ekki haft mjög skýra sýn um hverja við erum að mennta eða lokað háskólakerfi yfir höfuð. Við erum með galopið háskólakerfi sem við höfum hreykt okkur af og erum stolt af; við höfum stutt við þessa sjö flottu háskóla sem við erum með um landið. En við hv. þingmaður erum sammála um að við þurfum að gera betur. Og niðurskurðurinn sem hún vísar til varðandi árið 2024 eru Covid-framlögin svokölluðu sem eru að öðru óbreyttu að fara af háskólunum en settir voru inn verulegir fjármunir til að mæta þeim aukna fjölda sem kom inn í háskólana. Nú erum við að taka þá stöðu að nýju við vinnu fjármálaáætlunar, hver er fjöldi nemenda, hvar er hægt að gera betur, og forgangsatriðið er að breyta reiknilíkaninu svo að við getum eflt háskólana okkar, að þeir séu og eigi möguleika á að stefna í gæði á heimsmælikvarða, að skólarnir okkar séu betri, hvort sem litið er til öflugs rannsóknastarfs eða öflugrar kennslu í þágu samfélagsins sem við búum í.