Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[12:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingartillögu hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar, ef ég skil það rétt. Þetta er meira tæknilegt atriði og er í öðrum ríkjum og tilskipunum Evrópusambandsins sem fjalla um sams konar atvik. Hér er verið að tala um að í staðinn fyrir hugtakið „endurtekin umsókn“ verði sett inn „síðari umsókn“. Þetta er lagt fram að nýju vegna sömu atvika og tilvika; annars vegar getur einstaklingurinn komið og sótt um vernd og hann kemur aftur og aftur frá sama landi og ekkert hefur breyst hjá honum, það er bara endurtekið það sama. En þegar við erum að tala um síðari umsókn þá hefur eitthvað gerst í millitíðinni; það hefur orðið árás í landinu hans, einstaklingurinn liggur orðið undir einhverri ógn, virkilegri ógn, þannig að okkur ber í síðara tilvikinu að taka raunverulegt tillit til umsagnar hans aftur.