Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

útlendingar.

382. mál
[14:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Herra forseti. Óvenjumikill fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi hefur borist frá Venesúela undanfarin misseri. Nú er svo komið að þær eru fleiri en umsóknir frá Úkraínu og við þekkjum öll ástandið þar. Á síðasta ári bárust okkur 1.200 umsóknir frá Venesúela. Í Noregi voru þær 80. Úrskurður kærunefndar útlendingamála hefur opnað dyrnar fyrir þann fjölda sem hingað kemur frá Venesúela. Úrskurðurinn opnar fyrir það að efnahagsástand í viðkomandi ríki sé grundvöllur fyrir alþjóðlegri vernd á Íslandi. Það er andstætt lögum og andstætt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Breytingartillagan er því í raun óþörf þó að réttsýnn hugur fylgi máli.

Herra forseti. Ég hef óskað eftir því að kærunefnd útlendingamála komi fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og geri grein fyrir því hvers vegna nefndin fer ekki að lögum hvað þetta varðar.