Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

sóttvarnalög.

529. mál
[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir spurninguna og þessi atriði sem hv. þingmaður dregur hér fram. Þau eru fjölmörg og fleiri en það sem hv. þingmaður vekur hér athygli á sem við munum koma til með að þurfa að fara í gegnum. Ég nefni sem dæmi langvarandi áhrif á heilsu fólks og þá kröfur til endurhæfingar.

Það atriði sem við hv. þingmaður áttum orðastað um hér sem snýr að dauðsföllum er auðvitað til skoðunar og ég kynnti mér það aðeins eftir okkar ágætu samskipti hér í óundirbúnum fyrirspurnatíma varðandi — þar skiptir máli hvaða tímabil er skoðað, hversu langt, í samhengi við önnur tímabil, aðrar þjóðir, aldursdreifinguna í því. Þetta eru allt atriði eins og ég sagði þá sem við munum óhjákvæmilega fara í gegnum bæði með vísindasamfélaginu og fræðasamfélaginu. Mér finnst svona stóra spurningin, af því við erum að ræða þetta frumvarp hér: Af hverju þetta frumvarp hér og nú? Hvort þetta mætti bíða — ég held að það sé mjög gott að koma með þetta frumvarp núna og ég vísaði aðeins til þess í minni ræðu þegar við gerðum breytingar á þessu 2021 og þeirrar umræðu sem fór fram í þinginu þá og hjá hv. velferðarnefnd um hvaða breytingar væri skynsamlegt að gera á þeim tímapunkti og síðan bíða með og taka til frekari skoðunar eins og stjórnsýsluþáttinn.

Ég held að það sé margt hér í frumvarpinu til aukins skýrleika til að gefa okkur betri færi á því að vinna að þessu jafnvægi á milli mannréttinda og þess að verja líf og heilsu og hafa til þess skýra lagastoð og lagaheimildir. (Forseti hringir.) Ég held að hitt sem við eigum og þurfum að rannsaka geti farið fram þrátt fyrir þær breytingar sem við horfum á hér í þessu frumvarpi sem lagðar eru til.