Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

sóttvarnalög.

529. mál
[16:30]
Horfa

Ingveldur Anna Sigurðardóttir (S):

Virðulegur forseti. Öllum hér í þessum sal eru í fersku minni þær sóttvarnatakmarkanir sem í gildi voru á árunum 2020–2022 þótt einhverjar myndu sjálfsagt helst vilja gleyma þeim. Hins vegar er mikilvægt að draga lærdóm af þeim fordæmalausu atburðum sem áttu sér stað, bæði þar sem vel tókst til og þar sem hefði mátt gera betur.

Heilt yfir stóðu stjórnvöld sig vel í að takast á við ástandið og að mörgu leyti náðum við góðum árangri í baráttunni við heimsfaraldur kórónuveirunnar, til að mynda ef litið er til alvarlegra veikinda og dauðsfalla. Hins vegar komu í ljós ákveðnar brotalamir í sóttvarnalöggjöfinni sem að einhverju leyti er bætt úr í þessu frumvarpi heilbrigðisráðherra.

En betur má ef duga skal. Ég kalla eftir breytingum á því hvernig ákvarðanir um sóttvarnaráðstafanir eru teknar. Þegar litið er til baka má sjá að sóttvarnaráðstöfunum var stundum beitt með of íþyngjandi hætti gagnvart borgurum. Úrræðum eins og samkomutakmörkunum, einangrun og sóttkví var beitt óspart og oft og tíðum mun lengur en aðstæður kröfðust. Atvinnulífið lamaðist löngum stundum og atvinnurekendur og launþegar urðu fyrir gríðarlegu tekjutapi með tilheyrandi fjárhagsáhyggjum. Úr því þarf að bæta. Það er áhyggjuefni að framkvæmd sóttvarnaráðstafana var ekki sérstaklega lýðræðisleg, enda setur ráðherra fram reglur um sóttvarnaráðstafanir sem alla jafna eru samhljóða tillögum sóttvarnalæknis án nokkurrar aðkomu lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Alþingi. Mikilvægt er að aðkoma Alþingis að jafn mikilvægum og íþyngjandi aðgerðum og sóttvarnaráðstöfunum sé tryggð með það að markmiði að öll sjónarmið sem máli skipta fái að heyrast. Það er ekki nóg að líta einungis til þess hver verði möguleg fjölgun eða fækkun smita. Nauðsynlegt er að horfa einnig til félagslegra og efnahagslegra afleiðinga sóttvarnaráðstafana sem geta verið fjölmargar, enda hafa sóttvarnaráðstafanir jafnvel leitt til þess að fólk hafi misst lífsviðurværi sitt. Þá er fyrirséð að samkomutakmarkanir, einangrun og fjárhagserfiðleikar hafi neikvæð áhrif á andlega heilsu fólks og ætla má að slíkar afleiðingar hafi ekki enn komið að fullu fram og líklegt að þær verði talsverðar á komandi árum. Til þess að sóttvarnaráðstafanir nái markmiðum sínum verði almenningur að treysta því að slíkar ákvarðanir séu teknar á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Ef slíkt vald er fært of fáum einstaklingum með svipaðar skoðanir er hætta á að sóttvarnareglur séu settar á ómálefnalegum grundvelli, rétt eins og þegar stjórnvöld supu hveljur yfir tilhugsuninni um áheyrendur á knattspyrnuleikjum á sama tíma og 200 manns máttu koma saman innan dyra til að horfa á leiksýningu.