Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

opinbert eftirlit Matvælastofnunar.

540. mál
[16:59]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 682, 540. mál, um breytingu á ýmsum lögum er varða opinbert eftirlit Matvælastofnunar. Frumvarpið er samið í matvælaráðuneytinu og tilefni þess er í fyrsta lagi að breyta gjaldtökuheimildum sem fyrir eru í fimm lagabálkum sem falla undir verksvið Matvælastofnunar og í öðru lagi að bæta við gjaldtökuheimildum í tvo lagabálka þar sem þær skortir.

Það er rétt að benda á það í upphafi að þetta mál er afar mikilvægt. Matvælastofnun sinnir ákaflega víðfeðmum og mikilvægum verkefnum og þjónustu við samfélagið og atvinnulífið og eins og bent er á í nýlegri úttekt á stjórnsýslu fiskeldis Ríkisendurskoðunar þarf gjaldskrá Matvælastofnunar að endurspegla raunkostnað. Markmið þessa frumvarps er að tryggja það. Þá einnig að uppsetning gjaldskrár verði einfaldari og gagnsærri en nú er.

Matvælastofnun sinnir verkefnum og þjónustu á grundvelli fjölda lagabálka og innheimt þjónustugjöld á grundvelli gjaldskrár til að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst við þjónustuna. Mikilvægt er að gjaldskrárheimildir séu orðaðar með sambærilegum hætti og að ítarlega sé gert grein fyrir þeim kostnaðarþáttum sem felast í raunkostnaði þjónustu og eftirlits sem stofnunin sinnir, svo sem launakostnaði, tengdum kostnaði eins og vegna aðbúnaðar og aðstöðu og svo rannsóknarkostnaði vegna opinbers eftirlits. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru til einföldunar og til að auka gagnsæi við gerð gjaldskrár Matvælastofnunar, ekki einungis fyrir stofnunina sjálfa heldur einnig fyrir þau sem nýta þjónustuna. Lagt er til að gjaldtökuákvæðum í lögum um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, lögum um fiskeldi og lögum um velferð dýra verði breytt á þann veg að þar séu taldir upp þeir kostnaðarþættir sem skuli standa straum af kostnaði við þjónustuna eða vegna eftirlitsverkefna sem Matvælastofnun sinnir og ég hef tæpt hér á. Þá er lagt til að bætt verði ákveðnum sjónarmiðum við gjaldtökuheimild sem fyrir eru í lögum um innflutning dýra sem heimilt er að líta til við gerð gjaldskrár en slík sjónarmið er að finna í ákvæðum annarra laga sem varða verkefni Matvælastofnunar. Um er að ræða sjónarmið eins og t.d. hagsmuni fyrirtækja með litla framleiðslu og þarfir fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir landfræðilegar takmarkanir. Að auki er lagt til að gjaldtökuheimildum verði bætt við annars vegar lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og hins vegar lögum um útflutning hrossa. Matvælastofnun annast ýmis verkefni á grundvelli þessara laga og hefur hingað til ekki getað innheimt raunkostnað vegna þeirra verkefna.

Að lokum eru lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar á einu ákvæði í lögum um skeldýrarækt.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins sem hér er til umræðu og vil að öðru leyti vísa til greinargerðarinnar sem fylgir því þar sem ítarlega er fjallað um efni þess.

Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.