Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:03]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir ræðuna. Það eru ákveðin atriði í þessu frumvarpi sem ég er að velta fyrir mér. Ég hef áhyggjur af sjálfstæði þessa gæðastjóra lögreglunnar og velti því fyrir mér með hvaða hætti hæstv. ráðherra sér fyrir sér að sjálfstæði embættisins sé tryggt og hvernig það sé tryggt að það geti náð þeim markmiðum sem því er ætlað í frumvarpinu. Jafnframt er ég að velta fyrir mér hvort ekki vanti í frumvarpið að einstaklingur sem hafi sætt eftirliti sem á endanum leiði ekkert saknæmt í ljós eigi að geta kallað eftir því að öllum gögnum úr slíku eftirliti verði eytt. Það myndi ég telja að væri afar eðlilegt. Ef einstaklingur hefur að ósekju sætt slíku eftirliti væri eðlilegt að hann hefði tilkall til þess beinlínis að lögregla og eftirlitsaðilar myndu eyða slíkum gögnum. Að sama skapi kalla ég eftir því að ekki megi taka því með léttúð og það þurfi jafnvel að rannsaka hvernig það kemur til ef slíkt gerist því að þarna er um að ræða alvarlegt inngrip í friðhelgi einkalífs einstaklinga og ég hef bara miklar áhyggjur af því í ljósi nýlegra dæma um framgöngu lögreglunnar í umfjöllun t.d. gagnvart blaðamönnum sem fjölluðu um Samherja. Ég vil hvetja til að þetta verði skoðað.