Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:08]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svar við andsvari. Ég er að velta fyrir mér hvort það sé þá nóg að gert hvað varðar gæðanefndina og hvort það sé fullkomlega tryggt að hún hafi það sjálfstæði og hvort í þeim tilfellum sem hefur reynt á gæðanefndina hafi niðurstaðan gefið til kynna að það sé hafið yfir vafa að nefndin hafi haft fullt sjálfstæði til starfsins. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að við pössum upp á að hér sé algjörlega hlutlaus aðili sem sinnir því. Með hvaða hætti munu t.d. þingið og aðrir geta gaumgæft að rétt sé að staðið? Mun t.d. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geta óskað eftir því að fá til umfjöllunar eða fá skýrslur um starfsemi gæðanefndar um það hvernig hún hefur höndlað þau mál sem komið hafa upp? Þá tel ég mikilvægt að það sé hægt að nálgast tölfræði um það, að alla vega stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd geti nálgast tölfræði um það hvernig starfsemi nefndarinnar fer fram og hver niðurstaða mála sem fyrir hana koma hafi verið. Ég myndi hvetja til þess að þetta yrði eitt af því sem myndi fylgja þessu máli inn í nefndina.