Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:10]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst af öllu langar mig að biðja forseta að leiðrétta hér nefndina sem ég vísaði málinu til. Ég átti við allsherjar- og menntamálanefnd en það stóð hér stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en mál af þessum toga hafa farið til allsherjar- og menntamálanefndar.

Já, ég held að það sé verið að ávarpa hér mjög mikilvæg atriði í þessu. Þessum auknum heimildum verður að fylgja mikil ábyrgð og við þurfum að huga alveg sérstaklega að því og við höfum verið að gera það við samningu frumvarpsins. Ég er algjörlega opinn fyrir því að menn skoði þá einhver atriði sem betur mættu fara við málsmeðferðina hér í þinginu sem koma upp þar.

Það hefur reynt heilmikið á eftirlitsnefndina. Eins og ég kom inn á áðan þá hefur hún haft fullmikið að gera, það hafa verið það mörg verkefni sem henni hafa borist, og það hefur alveg reynt á sjálfstæði hennar í þeim efnum. En hér er verið að mæla fyrir um að nefndin sem skipuð verður, þá að nýju og með þessum öfluga hætti, skuli skila stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis skýrslu ár hvert um störf sín þar sem upplýst er um viðeigandi tölfræði varðandi eftirlit nefndarinnar, almennar ábendingar og athugasemdir varðandi verklag og starfshætti lögreglu og aðgerðir lögreglu í þágu afbrotavarna og tillögur að úrbótum á lögum ef við á. Þannig að það er hugsað hér beintenging einmitt milli þessarar nefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða þingsins og ég tel það bara mjög gott að þingið sé með þannig eftirlitshlutverk á þessum mikilvæga hluta starfsins.