Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:16]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim fyrir spurninguna og andsvarið. Já, þú metur það sem svo að þetta sé sögulegur fyrirvari þingflokks VG. Ég er búinn að reifa innihaldið í honum og ég tel að afstaða okkar sé afar skýr. Hins vegar þegar mál eru afgreidd — og ég get ekki svarað fyrir ríkisstjórn en ég get svarað fyrir þingflokk VG — og þegar mál eru afgreidd úr þingflokkum þá eru þau til þinglegrar meðferðar. Hér erum við, eins og ég hef reifað, búin að draga upp atriði í fyrirvara okkar sem við viljum að séu sérstaklega ávörpuð og ég hygg reyndar, ef ég skildi inntak andsvars hv. þingmanns, að við séum á svolítið svipaðri línu með þetta. Ég hjó þó eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að hann tók það sérstaklega fram að frumvarpið fæli ekki í sér víðtækar eftirlitsheimildir gagnvart almennum borgurum. Ég treysti þeim texta en ég treysti líka allsherjar- og menntamálanefnd og frekari þinglegri meðferð til að fara ofan í saumana á því og girða fyrir það ef einhver göt eða glufur eru á því.