Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:18]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Orra Páli fyrir svarið. Hann kom inn á það að hæstv. dómsmálaráðherra hafi í ræðunni tekið fram að þetta frumvarp feli ekki í sér víðtækar heimildir til að hafa eftirlit með almennum borgurum. Það kann að vera að hann hafi sagt það en það er náttúrlega eitt að segja eitthvað í greinargerð eða að lesa upp úr greinargerð og annað þegar kemur að beitingu laganna og beita þeim í framkvæmd. Hæstv. dómsmálaráðherra og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, formaður hv. allsherjar- og menntamálanefndar, vilja líka meina að útlendingafrumvarpið sem við erum að samþykkja í dag feli ekki í sér mannréttindabrot sem það gerir. Mér skilst, eins og hv. þingmaður sagði sjálfur, að við séum þannig séð á sömu blaðsíðu en ef það kemur í ljós að þetta hafi ekkert verið skoðað eða það kemur í ljós, eftir að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur farið ofan í saumana á þessu frumvarpi, að þetta séu bara frekar víðtækar heimildir, alla vega víðtækari heimildir en lögreglan hefur nú í dag, sér hv. þingmaður fyrir sér að þingflokkur VG muni greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi? Sér hv. þingmaður fyrir sér þann möguleika að vera rauður á þessu frumvarpi? Þetta er ekki bara þessi víðtæka heimild sem ég er að tala um heldur eru líka nokkur önnur vond ákvæði í þessu frumvarpi sem ég vona innilega að verði fjarlægð við þinglega meðferð. En eftir afgreiðslu útlendingamálsins í dag þá bind ég ekki rosalega miklar vonir við það.

(Forseti (LínS): Forseti sér ástæðu til að minna hv. þingmenn á að nota fullt nafn eða númer hv. þingmanna þegar vísað er til þeirra og jafnframt að nota ekki 2. persónu þegar vísað er til þingmanna.)