Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:21]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið þá ræðum við hér frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um breytingu á lögreglulögum sem hann leggur fram í tengslum við mikilvægi þess að bregðast við skipulagðri brotastarfsemi og öðrum þeim þáttum sem hæstv. ráðherra telur að þurfi að bregðast við eftir ábendingum lögreglunnar og þeirra sem bera ábyrgð á þeim málum. Ástæðan fyrir því að ég vil taka til máls undir þessu máli, og aðeins til viðbótar við það sem hv. þingmaður og þingflokksformaður VG ræddi hér áðan um fyrirvara okkar í VG, er að mig langar að brýna það fyrir nefndinni, enda er málið komið til þinglegrar meðferðar að lokinni 1. umr., hversu mikilvægt það er að stíga varlega til jarðar í þessum efnum, þ.e. þegar um er að ræða það að auka heimildir lögreglu. Ég er algjörlega sammála því og þeim forsendum sem hæstv. ráðherra nefnir hér, að það þarf að taka á málum sem þessum af festu, en ég vil reisa það flagg sem ég tel mikilvægt að halda til haga á öllum tímum sem er hversu mikilvægt það er að við gætum að mannréttindum fólks og mannréttindum almennings eins og við vinstra fólk höfum alltaf gert þegar heimildir lögreglu hafa verið til umræðu. Það er alltaf hætta, sem við verðum að ræða hér, virðulegur forseti, við 1. umr., á því að það sé gengið á grundvallarsjónarmið að því er varðar lýðræði, persónuvernd og mannréttindasjónarmið. Þess vegna tel ég mikilvægt að nefndin fjalli sérstaklega um það hvort besta leiðin til að styðja við og styrkja stöðu réttarríkisins og öryggis borgaranna sé með auknum rannsóknarheimildum eða að auka starfsafla, fjárframlög til þeirra úrræða sem til eru, þeim heimildum sem þegar eru fyrir hendi og hvað það er nákvæmlega, án þess að ég ætli að fara að ætlast til þess að hæstv. ráðherra svari þessu en fyrir okkur og fyrir hv. nefnd, sem ekki er hægt með núgildandi heimildum en væri hægt með þeim breytingum sem hér eru boðaðar. Hvað er það sem bætist við?

Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt líka að breytingar af þessu tagi, eins og hv. þm. Lenya Rún Taha Karim nefndi hér áðan, sem eru aukinn vopnaburður o.s.frv., og við höfum líka gert athugasemdir við, séu ekki gerðar á grundvelli ótta, séu ekki gerðar á þeim grundvelli að við séum hrædd því að við þurfum alltaf að byrja á því að hugsa um lýðræði og mannréttindi.

Það er kannski frekar á borði hæstv. dómsmálaráðherra að byggja málflutning sinn á frelsishugtakinu heldur en beinlínis þeim sjónarmiðum sem ég hef staðið fyrir en ég vil þó segja að frelsi er sá hornsteinn sem er réttur fólks til að vera til og njóta dagsins án þess að eiga það á hættu að einhver sem fer með opinbert vald gægist yfir öxlina á þeim og fylgist með þeim í daglegu lífi. Ég veit að það er ekki verið að boða slíkt í þessu frumvarpi hér en það er svo mikilvægt að engar breytingar séu gerðar þar sem slík sjónarmið eru sett í hættu. Við vitum, og ég er ekki að tala um sérstök tilvik hér á landi, að í pólitískri sögu víða um lönd og víða um heim kemur alltaf fram krafa og þrýstingur frá lögregluyfirvöldum á að nú sé komið að því að auka heimildir vegna þess að nú sé svo mikil ógn, hver sem hún er, og þá komi krafa um auknar heimildir og aukið eftirlit. Það er nefnilega verkefni og viðfangsefni þingsins að gæta að þessum sjónarmiðum. Þingið hefur það hlutverk að vera í raun og veru fyrsta snerting við fulltrúalýðræðið. Það er okkar að setja lögreglunni og öðrum handhöfum valds rammann. Það er stórt hlutverk. Við munum viðbrögðin við 11. september og við getum nefnt það sem dæmi. Við höfum séð margar hliðstæður þar sem dregin er fram raunveruleg ógn sem kallar á raunverulegan ótta og þar með raunverulegar breytingar á heimildum lögreglu. En það sem mig langar að gera í þessari ræðu er að draga fram að það er líka raunveruleg hætta á ferð þegar heimildir eru auknar. Ég vil skilja þá spurningu eftir hér í umræðunni hvort við séum með opin augun að vega og meta þá hættu sem auknar heimildir fela í sér.

Hv. þm. Orri Páll Jóhannsson fór hér yfir fyrirvara VG og þar töluðum við sérstaklega um það hve mikils virði það samfélag er sem við byggjum hér sem er samfélag þar sem við höfum viljað viðhalda friðsamlegum samskiptum í lengstu lög. En ég vil líka segja það, af því að ég vil bara orða það hér, að nefndin þarf sérstaklega að skoða hvort það sé fullkomlega tryggt að pólitísk samtök og grasrótarhreyfingar séu ekki undir sérstakri skoðun þegar og ef kemur til aukinna heimilda því að það er hættulegt fyrir lýðræðið.

Ég myndi auðvitað vilja að við ræddum miklu meira hvað það er sem veldur því að þessi staða kemur upp sem kallar á ótta og sem kallar þá á ákall um auknar heimildir. Eigum við að ræða þau samfélagsmein sem endurspeglast í því að fólk hagar sér á þann hátt að samfélaginu stafi ótti og ógn af því? Eigum við kannski líka að ræða þá upphafningu sem er víða í dægurmenningu á valdbeitingu, ofbeldi? Það er áhyggjuefni. Það er einhvers staðar jarðvegur fyrir hópa, það er einhvers staðar jarðvegur sem við sem samfélag þurfum líka að horfa til því að ef við hugsum einungis eða fyrst og fremst um einkennin, birtingarmyndirnar, þá erum við kannski að kallast á við vanda sem er ekki í þann veginn að verða leystur heldur mun bara vaxa. Félagslegar og samfélagslegar forsendur verður alltaf að skoða þegar við erum að tala um stórar, félagslegar og samfélagslegar spurningar og það hvernig við byggjum upp og búum að lögreglunni á hverjum tíma er viðfangsefni sem við verðum að skoða með slíkum augum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri en mér fannst mikilvægt að kalla þessi sjónarmið hér fram við 1. umr. í ljósi þess að við Vinstri græn höfum sett okkar mark á bæði afgreiðslu málsins í gegnum ríkisstjórn og líka í gegnum þingflokk VG. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þessi sjónarmið sem hér hafa verið rakin séu nesti inn í umræðuna hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd því að hér eru mjög viðkvæm og dýrmæt verðmæti í húfi sem eru lýðræði og mannréttindi.