Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:31]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, fyrir að gera grein fyrir sjónarmiðum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ég velti því samt fyrir mér í þessu samhengi hvort hæstv. matvælaráðherra telji nóg að gert, hvort fyrirvararnir sem gerðir hafa verið við þetta frumvarp séu nægir til þess að við tryggjum friðhelgi einkalífsins og við tryggjum að borgarar í þjóðfélaginu verði ekki fyrir óeðlilegu inngripi hvað varðar friðhelgi einkalífsins. Ég væri mjög forvitinn að heyra afstöðu ráðherra hvað það varðar, hvort við séum búin að gera nóg og sérstaklega í ljósi þess að forverar hennar í þeim flokkum sem urðu seinna að Vinstrihreyfingunni – grænu framboði máttu ítrekað sæta þess á árum áður að með þeim var fylgst af lögreglu og oft á grímulausan hátt. Ég tek undir með hæstv. matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, um að við verðum að stíga varlega til jarðar. En ég er hreinlega ekki sannfærður um að við séum að stíga alveg nógu varlega til jarðar í þessu máli. Það kallar á ákveðna árvekni og við verðum einhvern veginn að tryggja að það sé jafn mikið eftirlit með þessari eftirlitsstarfsemi og öðru.