Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

lögreglulög.

535. mál
[18:46]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hef pínulitlar áhyggjur af þessu máli. Ég hef áhyggjur af þeim hlutum sem ég vék að í andsvörum við hæstv. dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson hvað varðar sjálfstæði og tel afar mikilvægt að það sé tryggt. Ég hef áhyggjur af réttindum þeirra sem sæta eftirliti að ósekju. Nú vék hæstv. dómsmálaráðherra einnig að því að ekki væri ætlunin að beita þessu eftirliti gegn almennum borgurum. En hverjir eru almennir borgarar? Eru það ekki bara við öll? Erum við ekki öll almennir borgarar þangað til annað kemur í ljós? Ég velti fyrir mér: Hvernig útfærum við það? Hvernig tryggjum við að almennir borgarar verði ekki fyrir þessu eftirliti? Það gengur einhvern veginn ekki upp í hausnum á mér hvernig það verður tryggt.

Það er annað sem mig langar að víkja að. Það þarf að vera alveg girt fyrir það, þegar þetta kemur til umfjöllunar, að lögreglan, eftir að hafa farið í slíkt eftirlit, fari að fiska, fari að reyna að finna eitthvað til að réttlæta það að eftirlitið hafi farið af stað. Það er stórhættulegt og það eru dæmi um það frá öðrum löndum, þar sem lögregla hefur slíkar heimildir, að leitast er eftir því að ef ekkert finnst þá fari af stað vinna við að finna eitthvað annað. Það kemur fyrir að fólki verður á og þá er óeðlilegt, ef stofnað hefur verið til eftirlits út af ákveðnum hlutum, að hægt sé að nýta alls óskylda hluti sem uppgötvast við það til að réttlæta það eftirlit.

Ég held að það þurfi að afmarka það mjög þröngt hvernig eftirliti er beitt og að það sé alveg skilgreint, áður en farið er af stað í slíkt eftirlit, hver tilgangurinn er. Eftir hverju er verið að leita? Það á ekki að vera í boði að fá einhvers konar frítt spil, að finna bara eitthvað. Það gengur einhvern veginn ekki upp í mínum huga og ég held að það gæti orðið stórhættuleg þróun. Mér líst eiginlega ekki neitt sérstaklega vel á hvert það gæti farið. Það er það sem ég legg til, ég legg til að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði hvernig við getum tryggt hagsmuni hins almenna borgara, sem við erum jú öll. Ég læt þetta duga í bili.