Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 64. fundur,  9. feb. 2023.

raforkulög.

536. mál
[19:00]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þm. Orri Páll Jóhannsson kemur hér með fyrirspurn sem er mjög eðlileg í þessu máli. Í grunninn er þetta auðvitað þannig að það er verið að innheimta viðbótarkostnað sem augljóslega er til staðar við tengingar og framkvæmdin hefur verið með ákveðnum hætti eins og rakið er. Menn stóðu í þeirri trú að þannig væri málum fyrir komið og það er tilgreint í greinargerðinni, en eins og ég skil málið hefur það fallið úr frumvarpsdrögunum í meðförum þingsins á sínum tíma. Svo bara kemur í ljós, eins og ég skil málið, að lagatextinn er ekki fullnægjandi þannig að það eru gerðar athugasemdir við það og úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hérna sé ekki heimild til þess að innheimta þennan viðbótarkostnað sem menn hafa gert og gert er ráð fyrir. Þá voru góð ráð dýr og ekkert annað í stöðunni en að breyta annaðhvort algerlega fyrirkomulaginu, sem myndi þýða það að kostnaðurinn sem mönnum finnst eðlilegt að setja á viðkomandi aðila þegar þeir ná tengingu yrði settur einhvers staðar annars staðar, eða, og niðurstaðan er sú, að leiðrétta það sem þarna hefur misfarið, að því gefnu að þingið samþykki það. Eins og kemur fram er þetta nokkuð aðkallandi, málið fer ekki í hefðbundið samráðsferli út af því að það þurfti að bregðast við þessu nokkuð skjótt.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns um hvort þarna sé um einhverjar hækkanir að ræða þá þýðir þetta óbreytt ástand í rauninni. En það er verið að skerpa á því vegna þess að þarna hefur vantað að lagatextinn hafi verið í samræmi við framkvæmdina og eftir því sem ég best veit hefur mönnum ekki fundist neitt athugavert við uppleggið eða framkvæmdina. En það var eitthvað athugavert við lagatextann og þess vegna kveður úrskurðarnefndin upp þennan úrskurð.