153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

aðbúnaður fíkniefnaneytenda.

[15:39]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þær ömurlegu fréttir bárust okkur nú þann 17. febrúar sl., á föstudaginn, að eldur hefði kviknað í áfangaheimili að Vatnagörðum 18. Enginn lét lífið í þessum voðaatburði en fimm voru fluttir á sjúkrahús. Þarna eru hýstir í iðnaðarhúsnæði fíklar sem eru í virkri neyslu og meira að segja er búið að setja þarna inn 7–8 hælisleitendur. Fólk sem er að koma hingað og leita eftir betra lífi hefur verið sett inn í eiginlega ólýsanlegar aðstæður. Ég velti fyrir mér, og þess vegna langar mig að ræða þetta við hæstv. ráðherra — ég hefði raunar getað nefnt þetta við svo marga fleiri ráðherra; það væri gaman ef þeir tækju saman höndum, félags- og vinnumarkaðsráðherra, dómsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra, til þess að virkilega koma með heildstæða sýn á það hvernig við erum að fara með þetta fólk. Þetta fólk sem er fárveikt og mætir slíkum og þvílíkum fordómum í samfélaginu að það er eiginlega sárara en tárum taki. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra að því hvort hann hafi t.d. verið meðvitaður um þá stöðu sem er ríkjandi í Vatnagörðum 18 á þessu áfangaheimili. Það er ekkert regluverk og lélegar brunavarnir. Í rauninni þarf ekki einu sinni leyfi. Það getur hver sem er opnað áfangaheimili og bara skilið það síðan eftir eins og raun ber vitni, alveg án eftirlits. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé að bregðast við að einhverju leyti þessu ógnarástandi sem kom upp þann 17. febrúar sl.