153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

aðgerðir stjórnvalda í þágu tekjulágra.

[16:00]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórnin er búin að missa tökin á stjórn efnahagsmála. Það sjáum við í 9,9% verðbólgu og hæstu seðlabankavöxtum í 13 ár. Fólkið í landinu líður fyrir þetta með rýrnandi kaupmætti og snarhækkandi greiðslubyrði af fasteignalánum. Um leið situr tekjulægsta fólkið á Íslandi eftir á stjórnlausum leigumarkaði þar sem okurfyrirtæki fá frítt spil og leigukostnaður sem hlutfall af ráðstöfunartekjum fólks er einn sá hæsti meðal OECD-ríkja.

Þetta er staðan, virðulegi forseti, og á meðan sjáum við ofurhagnað og ofurlaun í bankakerfinu, methagnað hjá stórútgerð og sprengingu í fjármagnstekjum þar sem eina prósentið tekur til sín æ stærri hlutdeild af kökunni. „Bókfærð mánaðarlaun forstjóra næstum 19 milljónir ofan á kauprétt upp á milljarð“ — þetta er fyrirsögn frá því um helgina. Og hvað á þá tekjulægsta fólkið á Íslandi að gera annað en að krefjast leiðréttingar á þessu óréttlæti gegnum launaliðinn? Hvers vegna ætti lágtekjufólk að sýna sérstaka hófsemi og biðlund þegar ríkisstjórn Íslands hirðir ekki um að jafna byrðarnar, þegar ríkisstjórn Íslands hirðir ekki um að vinna gegn verðbólgu? Er ekki með neitt plan, eins og kom svo skýrt fram áðan í máli hæstv. forsætisráðherra sem hafði engin svör.

Spurning mín til hæstv. vinnumarkaðsráðherra er þessi: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að lægja öldurnar á vinnumarkaði? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að höggva á hnútinn? Hvert er eiginlega planið? Ætlar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að berja niður verkföll með lagasetningu eða er kannski kominn tími til að sýna hér alvöruforystu og ráðast í einhverjar þær aðgerðir sem við jafnaðarmenn höfum talað fyrir í allan vetur, aðgerðir til að koma böndum á verðbólgu, aðgerðir til að verja tekjulægsta fólkið gegn henni, styrkja velferðarkerfið en skattleggja ofurhagnað, skattleggja auðlindarentu og setja bremsu á hækkun leiguverðs? Kemur þetta til greina?