Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi.

[16:30]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið og raunar er það nú þannig að skýrsla sú sem er kveikjan að þeirri umræðu sem hv. þingmaður hefur frumkvæði að er til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þannig að okkur gefst vonandi aftur tækifæri til að ræða málið. Ég held að það sé afar mikilvægt, eins og fram hefur komið í mínu máli, að Alþingi sé miðjan í þeirri umræðu sem nauðsynlegt er að eiga um framtíð og uppbyggingu þessarar atvinnugreinar. Þess vegna fagna ég hverju því frumkvæði sem kemur frá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í úrvinnslu málsins, en ekki síður frumkvæði einstakra þingmanna til að taka málið til umfjöllunar.

Hv. þingmaður spyr nokkurra spurninga og ég reyni að snerta á svörum við þeim eins og kostur er, í fyrsta lagi varðandi þær breytingar sem hægt er að ráðast í nú þegar. Það eru í fyrsta lagi breytingar sem fela í sér aukið samstarf stofnana og ráðuneyta og þetta er aðgerð sem nú þegar er hafin. Útkoma þessarar vinnu getur falið í sér eða orðið tilefni til laga og reglugerðarbreytinga. Við munum, í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, taka leyfisveitingaferli sjókvíaeldis til endurskoðunar og við viljum líka kanna möguleika þess að samræma lögbundin ákvæði sem varða umsóknir, umsýslu, skilyrði og útgáfu starfs- og rekstrarleyfa.

Í öðru lagi má bæta úr hluta athugasemda Ríkisendurskoðunar beint með reglugerðarbreytingum og sumar má ráðast í strax, svo sem auknar eftirlitsheimildir Matvælastofnunar þar sem mikilvægt er að fara í heildstæða skoðun.

Í þriðja lagi er um að ræða heildstæða endurskoðun á lögum um fiskeldi sem liggur í raun og veru í lögunum sjálfum vegna þess að í þeim er kveðið á um að lagt sé fram nýtt frumvarp um endurskoðun á lögum um fiskeldi á árinu 2024. Það liggur í raun og veru í gildandi lögum.

Hv. þingmaður spyr líka um að gera eftirlitið óháðara greininni. Það er auðvitað mjög mikilvægt að opinberir eftirlitsaðilar hafi mannafla og tækjabúnað til að stunda eftirlit með greininni, en það er ekki nóg ef eftirlits- og valdheimildir eru ekki nægilegar og þetta þurfum við að skoða í stefnumótunarvinnu.

Hv. þingmaður spyr líka um samþjöppun eignarhalds og hvort það sé ekki áfellisdómur yfir störfum stjórnvalda á síðustu árum. Eins og kom fram í mínu máli þá taldi ég best fyrir málaflokkinn að það væri Ríkisendurskoðun sem kæmi að þessari úttekt vegna trúnaðar ríkisendurskoðanda við Alþingi. Það er auðvitað umhugsunarefni til framtíðar og í samhengi við aðrar atvinnugreinar, að þegar stjórnvöld segjast ætla í framtíðinni að taka gjald fyrir leyfi til tiltekinnar atvinnustarfsemi þá verði til aðstæður til kapphlaups. Það er eitt af því sem bent er á hér. Þær aðstæður mynduðust auðvitað á árinu 2017 þegar kynntar voru niðurstöður starfshóps sem fjölluðu m.a. um það. En veruleikinn er sá að það voru engar bremsur settar á það á árunum 2017–2019 að hægt væri að sækja um leyfi og þess vegna er nú staðan sú að ekkert leyfi hefur verið boðið út samkvæmt því ferli sem lýst er í lögum um fiskeldi og bætt var inn á árinu 2019. Það er staðreynd að þessum leyfum hafði þá flestum verið úthlutað eða umsóknarferli verið komið út samkvæmt ákvæði til bráðabirgða sem var samþykkt í lagasetningunni 2019.

Verkefnið núna er að gera umbætur sem þarf til þess að greinin geti byggst upp á sjálfbæran hátt. Ég held að við höfum mikinn efnivið í þessari skýrslu sem hér er til umræðu og ég vonast til þess að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd muni liðsinna mér í því í umfjöllun sinni um skýrsluna. Ég tek eftir því að hv. þingmaður nefnir fyrst og fremst stjórnvöld og þá ríkisstjórn, og ég skal síst vera til þess að víkja mér undan ábyrgð á því að leggja í stefnumótun, enda stendur það til. En ég vænti þess að eiga gott og öflugt samstarf við hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og alla flokka hér á Alþingi.

Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um Hafró, sem hefur þurft að sækja fjármagn í samkeppnissjóð til að geta gert burðarþolsmat, þá er ég sammála hv. þingmanni að það verður að teljast óheppilegt. Það er þó ekki nýlunda að það komi fram nú í þessari skýrslu, en það er óheppilegt að stofnanir sem þurfa að sinna lögbundnum verkefnum sæki fjármagn í samkeppnissjóð og við hljótum að taka þetta til sérstakrar skoðunar.

Virðulegi forseti. Ég vona að ég geti snert á fleiri spurningum hv. þingmanns hér þegar ég kem í síðara sinn.