Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 65. fundur,  20. feb. 2023.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi.

[16:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Hvað er til ráða? Hvað getum við gert til þess að tryggja sátt í samfélaginu um þá mikilvægu uppbyggingu sem á sér stað núna hvað varðar laxeldi? Eigum við ekki að byrja á því að láta þá greiða það sama fyrir aðganginn að auðlindinni okkar eins og þeir væru að greiða í Noregi, þá norsku herramenn sem hér hafa fengið að söðla undir sig aðstæður hér víðs vegar um landið og sérstaklega fyrir vestan? Við getum verið þakklát og verðum að átta okkur á því að það er mjög mikilvægt að við séum í sátt við þetta eldi vegna þess að þetta er að gera alveg gríðarlega góða og uppbyggilega hluti fyrir brothættar og viðkvæmar byggðir fyrir vestan. Við vitum það.

En spurningin er í rauninni: Hvað getum við gert í sátt? Ég vísaði hér í 15 ára gamalt markmiðsákvæði í fyrri ræðu minni sem lítur í raun afskaplega vel út. Við vitum að jafnvel þeirri litlu löggjöf sem er um eldi er ekki fylgt. Við vitum t.d. að þar sem á að setja inn nýja árganga þegar búið er að slátra úr kvíum þá eiga að líða x margir mánuðir, 6–8 mánuðir, þar til aftur er endurnýjað í kvíunum til að reyna einmitt að tryggja að búið sé að ræsta undir kvíunum og reyna að minnka allt sem heitir mengun og skaði náttúrunnar. Það hefur ekki verið gert. Við verðum líka að færa eftirlitið þangað sem starfsemin fer fram. Það er algjörlega galið að Matvælastofnun skuli alltaf vera með allt á sínu borði og sé í rauninni eins ömurlega léleg og raun ber vitni í sínu eftirliti. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að hún hefur ekki umboð til að fylgja því betur eftir eða hvort hún er svona grútmáttlaus yfir höfuð. Staðreyndin er sú að við verðum að koma eftirliti þangað sem starfsemin fer fram. Það er óboðlegt, virðulegi forseti, að við séum að senda eftirlitsaðila sem tekur allt að tíu daga að komast á staðinn, eins og ég sagði áður, þegar slys hafa orðið varðandi kvíarnar og eldislax sloppið út í vistkerfið.