Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

greinargerð um sölu Lindarhvols.

[14:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og þér nefnið sjálfir þá hafði verið tekin ákvörðun um birtingu. Svo bárust enn á ný athugasemdir frá sömu aðilum og hafa lagst gegn því að þessar upplýsingar verði gerðar opinberar og málið verið í einhvers konar frosti í forsætisnefndinni síðan, a.m.k. af hálfu hæstv. forseta. Þá veltir maður fyrir sér: Hvað þarf hæstv. forseti að fá fram til að kveða upp úr um og klára málið? Er ekki nóg, sem ég hefði nú talið að ætti að vera til þess fallið að höggva á hnútinn, þegar höfundur skýrslunnar, fyrrverandi ríkisendurskoðandi og settur ríkisendurskoðandi fyrir Alþingi í þessu tiltekna máli, er búinn að fara fram á það að skýrslan verði birt, ekki bara segja að það sé í lagi heldur benda á að það sé skuggalegt að gera það ekki? Dugar það ekki forseta til að kveða upp úr um og klára þetta mál og birta þessar upplýsingar?