Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

framkvæmd EES-samningsins.

595. mál
[15:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Eins og er myndi ég telja að okkur sé betur borgið inni í EES-samningnum en eins og ég hef líka bent á þá finnst mér að við þurfum að vanda okkur betur í innleiðingum tengdum þeim samningi og sjá til þess að það séu betri vinnubrögð við samninginn og það sé gagnsærra hvað er verið að fjalla um og innleiða. Ég verð að segja líka eins og er að það eru svolítið skrýtin trúarbrögð að trúa því að það sé hægt að fanga koltvísýring í loftinu og dæla honum niður í jörðina. Eftir því sem mér skilst á þetta að fara dýpra en þar sem neysluvatnið er og ef 12.000 tonn geta valdið jarðskjálfta þá veit ég ekki hverju 270.000 tonn munu valda.

En það sem er furðulegast við það er að því sem var dælt niður í Hellisheiðarvirkjun á sínum tíma, tók held ég fyrsta eldgosið á Reykjanesskaga eitthvað um hálfan dag að spúa því út. Þannig að ég tel að í þessu tilfelli séum við að elta skottið á okkur sjálfum. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að vera sammála mér í því að við erum með hreina orku hérna og við erum að reyna að hæla okkur af henni og þess vegna eigum við ekki að leyfa að það sé hægt að selja hana til einhverra umhverfissóða í Evrópu sem eru að brenna kol eða með kjarnorku. Þeir verða bara að bera ábyrgð á sinni raforku og hvernig þeir framleiða hana og við eigum að sjá til þess að við séum að nýta okkar sem best og í þágu umhverfisins.