Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

framkvæmd EES-samningsins.

595. mál
[16:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þegar ég starfaði á Ríkisútvarpinu, sjónvarpinu, á fréttastofunni þar, átti fréttastofan eintak af EES-samningnum eins og hann leit út þegar hann var innleiddur. Þetta voru fjórir tiltölulega litlir bæklingar. Nú fyllir þessi samningur, ég veit ekki hversu marga hillumetra af stórum möppum og heldur áfram að vaxa og virðist oft á tíðum vaxa nánast stjórnlaust.

Það sem var lagt upp með í upphafi hefur gert heilmikið gagn fyrir Ísland og önnur EES-lönd og eflaust meira gagn en fólk almennt gerir sér í hugarlund. En í seinni tíð hefur samningurinn líka valdið meiri vandræðum en margir gera sér í hugarlund því að það sem hefur verið að bætast við — ja, sumt er gott eins og gengur, en allt of margt af því er til þess fallið að flækja allt regluverk að því marki að við innleiðum hér á færibandi á Alþingi EES-reglugerðir og frumvörp, þingsályktunartillögur byggðar á því án þess, að því er virðist, að stjórnkerfið eða þingmenn geri sér alltaf fyllilega grein fyrir hver raunveruleg áhrif þessa verða. Af því að það hefur komið upp aftur og aftur á undanförnum árum að til að mynda fyrirtæki sem þurfa að starfa eftir einhverjum af þessum nýjustu reglugerðum geta ekki einu sinni fengið upplýsingar um hvernig eigi að gera það. Það virðist vera á reiki. Ég hef heyrt, m.a. frá fyrirtækjum á landsbyggðinni, sögur af því að þar hafi menn verið sektaðir fyrir að fylgja ekki nýjustu reglugerðinni eftir að hafa þó gert sitt besta og án þess að geta fengið hjá kerfinu upplýsingar um hvernig ætti að uppfylla þetta í raun.

Margt skrýtið hefur verið innleitt af þessum toga, til að mynda skráning raunverulegra eigenda, sem varð til þess að að halda þurfti fundi í kirkjugörðum til að ákveða hver ætti kórinn í raun og veru. Í alls konar félagasamtökum, stjórnmálaflokkum og um allt átti einhver að halda því fram að hann ætti þessi samtök án þess að það væri raunin. Með öðrum orðum þá var verið að búa til eitthvert kerfi sem ætlaðist til þess af fólki að það segði í rauninni ósatt vegna þess að ef þú skilaðir ekki þá lentir þú í vandræðum.

En þetta var kannski alvarlegasta atriðið. Það er frekar hið ýmsa regluverk sem gerir stofnun og rekstur fyrirtækja til að mynda sífellt erfiðari og gerir fólki erfiðara fyrir í sínu daglega lífi. Þetta ágerðist mjög og, eins og ég segi oft og tíðum, án þess, að því er virðist, að menn geri grein fyrir því hver raunveruleg áhrif þess verða.

Það kallar á að við endurskoðum á einhvern hátt hvernig við nálgumst þetta því að þó að sumir þeirra þingmanna eða stjórnmálaflokka sem halda því fram að þeir telji mikilvægt að einfalda regluverk þá virðist það ekki eiga við þegar það kemur í pakka frá útlöndum. Þá á að innleiða og innleiða jafnvel af meiri krafti en aðrir.

Þá komum við að því sem hefur verið kallað gullhúðun í þessari umræðu, mikið áhyggjuefni. Ég er ekki viss um að nafnið sé endilega viðeigandi því að gullhúðun gefur yfirleitt til kynna að verið sé að láta eitthvað líta út fyrir að vera fegurra en undirlagið gefur til kynna. Þetta er í rauninni reglugerðasmygl, myndi ég segja. Það er verið, að því er virðist, of oft að lauma inn einhverju til viðbótar við það sem við hefðum þurft eða ætlast er til af okkur af hálfu EES-kerfisins að innleiða. Ég er nú ánægður að heyra og að hafa heyrt fáeina þingmenn stjórnarliðsins taka undir að þetta væri áhyggjuefni. En er von á einhverjum aðgerðum til að taka á þessu? Mér finnst það nú heldur ólíklegt svona eins og hlutirnir hafa þróast, þótt stöku stjórnarþingmaður lýsir stundum áhyggjum af einhverju sem nauðsynlegt sé að taka á þá skilar það sér ekki alltaf í framkvæmd.

Og talandi um framkvæmd, áhyggjuefni, ekki kannski minna áhyggjuefni en gullhúðunin eða reglugerðasmyglið, er framkvæmdin, sem oft virðist vera jafnvel eða stundum alla vega vera gengið harðar fram hér á landi við eftirfylgnina en í mörgum Evrópusambandslöndum. Þetta bitnar t.d. mjög á íslenskum landbúnaði sem er sótt að úr mörgum áttum samtímis núna. En íslenskur landbúnaður virðist manni vera látinn uppfylla kröfur af meiri hörku en landbúnaður í jafnvel Evrópusambandslöndum. En allt er þetta til þess fallið að veikja samkeppnisstöðu þeirra minni því að stórfyrirtæki — Evrópusambandið virðist aðallega hugsa út frá stórfyrirtækjum, einhverri glóbalistasýn, eins og farið er að kalla það. Stórfyrirtæki geta verið með heila deild í að uppfylla allt þetta regluverk og fást við það, bara fást við kerfið dagsdaglega, þau geta haft heila deild til þess, a.m.k. starfsmenn. Lítil fyrirtæki ráða mun síður við þetta. Kostnaðurinn verður meiri en þau geta borið. Þau hafa ekki efni á að stofna deild um að fást við kerfið og fylgjast með nýjustu EES-reglugerðunum. Þar þarf kannski eigandi í litlu fyrirtæki að sitja sjálfur sveittur við það að reyna að greiða úr þessu og hugsanlega kaupa sér, oft og tíðum nauðsynlega, aðstoð sem þarf að greiða töluvert fyrir. Þetta veikir líka, eins og ég nefndi, stöðu litla íslenska landbúnaðarins, fjölskyldubúanna í samkeppni við stóra landbúnaðarframleiðslu, verksmiðjuframleiðslu í útlöndum. Þetta finnst mér vera áhyggjuefni varðandi það hvernig þessi sístækkandi samningur er að þróast. Hann er farinn að veikja stöðu minni aðilanna og það er afskaplega óæskilegt fyrir uppbyggingu og framtíðarverðmætasköpun, því að verðmætin og störfin flest hafa yfirleitt orðið til hjá litlu fyrirtækjunum. Svo ná kannski sum að stækka en sum ná því hugsanlega aldrei vegna reglugerðarfargansins. Þetta er eitthvað sem þarfnast skoðunar.

Þingmenn Miðflokksins báðu um skýrslu um kosti og galla EES-samningsins og það var samþykkt hérna í þinginu, en ég veit það ekki hvernig leiðbeiningar sá sem skrifaði skýrsluna fékk, hvort það var öll setningin, því að í skýrslunni eru bara kostir EES-samningsins og svo er talað um að skoða þyrfti hitt síðar. En þetta er búið að vera svolítið einkennandi varðandi umræðuna um EES. Menn koma hver af öðrum, og ég er ekki bara tala um umræðuna núna heldur almennt, og tala um hvað EES-samningurinn sé frábær og hafi gert mikið fyrir okkur. Vissulega hefur hann gert margt fyrir okkur en menn forðast það að gagnrýna það sem aflögu hefur farið og það sem þarf að laga í samræmi við tilefnið. Eitt af því sem þarf svo sannarlega að bregðast við — og ég var nú nokkuð ánægður með hvernig hæstv. utanríkisráðherra fjallaði um það. En enn og aftur þá bíðum við og sjáum hver niðurstaðan verður varðandi þetta ETS-kerfi og tilraun Evrópusambandsins núna til að leggja af flugsamgöngur við Ísland í núverandi mynd, því að þetta hefði þau áhrif. Ísland sem miðpunktur flugs hér í Norður-Atlantshafi gæti ekki nýtt þá stöðu lengur að sama skapi og hagkvæmni flugs til og frá landinu yrði mun minni og valkostirnir, möguleikar okkar á því að vera hluti af umheiminum, komast á milli landa, myndu takmarkast mjög verulega.

En ég verð hins vegar að segja að þegar varaforseti framkvæmdastjórnarinnar kom hingað í heimsókn, eins og hæstv. ráðherra nefndi, þá fannst mér hann, a.m.k. ekki á þeim tíma, vera á því að Íslendingar ættu rétt á einhverjum sérstökum undanþágum varðandi þetta. Ég og fleiri bentum honum á hið augljósa, að Ísland væri eyja og við þyrftum að geta ferðast til annarra landa með flugi. En þá kom hið dæmigerða Evrópusambandstal um að það væru allir í þessu saman og eitthvað slíkt. Þetta er annað sem er farið að vera, finnst mér, meira áberandi en áður var, að samningurinn er að stækka í þá veru að hann nær til sviða þar sem hagsmunir Íslands eru gjörólíkir hagsmunum annarra landa og regluverkið þar af leiðandi síður viðeigandi hér en þar. Varðandi flugið þá er það auðvitað algerlega fráleitt að á sama tíma og stjórnvöld þykjast vilja stuðla að auknum fjölda ferðamanna hér á landi eða annars staðar skuli um leið vera settir nýir og nýir skattar og refsigjöld á fólk sem vill ferðast. En það er ekki alltaf fullkomið samræmi í því sem stjórnvöld gera.

En varðandi þessi stóru atriði þar sem þetta regluverk á ekki við um Ísland þá er það ekki hvað síst á sviði orkumála og umhverfismála þar sem við erum með mjög verulega sérstöðu samanborið við hin Evrópulöndin, a.m.k. langflest. Þar þurfum við að stíga fastar niður fæti. Ég þarf ekki að rifja upp þriðja orkupakkann, en mér finnst dálítið óþægilegt að heyra ráðherra og þingmenn tala á þeim nótum að við eigum að vera mjög þæg gagnvart umhverfisstefnu Evrópusambandsins því að hún hentar okkur ekki. Evrópusambandið er — ég þyrfti að halda ræðu um það, frú forseti — í rauninni að flytja út verðmætasköpun og framleiðslu til annarra landa eftir oft og tíðum fráleita lagasetningu, jafnvel það að lögbinda hvernig losun eigi að þróast sem því miður henti hér á Íslandi líka og mun hafa í för með sér heilmiklar flækjur þegar fram líða stundir. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það. En afleiðingin í Evrópu er sú að framleiðsla flyst í síauknum mæli til annarra landa, ekki hvað síst til Kína til að forðast það að losunin skrifist beint á þessi lönd. Losun í Kína er nú orðin fjórfalt meiri en öll losun Evrópusambandslandanna, þótt Bretland sé meðtalið, sem er auðvitað ekki lengur þar. En þessi þróun heldur bara áfram. Það er með sífellt umfangsmeira regluverki og algerlega óraunhæfum og gagnlegum aðferðum í umhverfismálunum verið að þrengja að verðmætasköpun í Evrópu og þar með kjörum fólks og framtíð þess.

Þetta kallar á sérstaka ræðu, frú forseti, ég viðurkenni það og læt staðar numið með umhverfismálin í bili en minni bara á þetta: Það þarf að varast það að láta draga landið áfram inn í þátttöku með Evrópu í regluverki sem hentar hugsanlega þeim og hugsanlega ekki einu sinni þeim en hentar alls ekki Íslandi miðað við aðstæður hér. Það tókst á sínum tíma að koma í veg fyrir að við yrðum skyldug til að taka upp regluverk Evrópusambandsins um járnbrautarlestir, en atvinnubílstjórar eru skikkaðir á skyldunámskeið vegna aksturs yfir landamæri. Ég veit ekki hvort einhver hefur reynt að aka frá Íslandi til Evrópu en hann er þá alla vega ekki kominn alla leið sá. Þannig að við þurfum að líta á með hvaða hætti aðstæður hér eru ólíkar því sem er í Evrópusambandinu. Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða og varðandi þetta flugmál sem er stórmál — stórmál — á allan hátt, bara framtíðarþróun samfélagsins. Þetta hefur áhrif á svo mörgum sviðum. Það sem ég vil ekki sjá koma út úr þessu er eitthvert „samkomulag“, blaðamannafund þar sem kynnt er eitthvert samkomulag og svo þegar farið er að rýna í það að þá sé allt ruglið þarna inni enn þá. En það þarf að taka hart á þessu og ég myndi vilja heyra hæstv. ráðherra segja: Við munum ekki taka þetta upp. Frekar stoppum við þetta allt saman. Við munum ekki taka þetta upp. Á þessum tímapunkti þarf íslenska ríkisstjórnin að segja það, tala hreint út og afdráttarlaust.