Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 66. fundur,  21. feb. 2023.

framkvæmd EES-samningsins.

595. mál
[18:21]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu og framlagningu þessarar skýrslu. Ég vil líka þakka fyrir þetta verklag almennt. Eins og fram kemur í skýrslunni þá er þetta í þriðja sinn sem skýrsla af þessu tagi er lögð fram fyrir þingið og ég tel til mikillar fyrirmyndar að mál séu unnin með þessum hætti, að tekin séu saman reglulega helstu álitaefni og gerðir sem hafa verið innleiddar og birt sýn ríkisstjórnarinnar á þetta samstarf. Það er mikilvægt að vera vakandi fyrir samstarfinu og hvernig það gengur. Þó að margt af þessu sé færibandavinna þá höfum við, eins og hefur verið rakið í skýrslunni og hefur verið rætt hér, oft tækifæri til að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir á fyrri stigum og gott að geta séð tækifærin þar fyrir fram. Þetta er náttúrlega ákveðið fullveldisafsal en þetta er meðvitað fullveldisafsal og gert í þeim tilgangi að ná fram skilvirkni á ýmsum sviðum. Það er bara ákveðið fyrir fram, ríkin sem eru aðilar að þessu samstarfi skuldbinda sig fyrir fram til að taka upp ákveðna hluti og fara eftir þeim. Þetta byggist að sjálfsögðu á trausti. Það er bara búið að ákveða það: Ég ætla að treysta þessum aðilum að þessu samstarfi af því að ég tel það heildinni til hagsbótar. Þarna er náttúrlega mikilvægt líka að geta, ef í óefni stefnir, dregið sig til baka úr slíku samstarfi en hér hefur það sannað sig. Hér eru þingmenn t.d. almennt mjög sammála um að þetta samstarf hefur verið farsælt og aukið velsæld, veitt okkur aðgang að mörkuðum og veitt öðrum aðgang að okkar mörkuðum. Hin frjálsa för innan EES er að sjálfsögðu mjög jákvæð en reyndar er hin hliðin á peningnum sú að svæðið getur verið svolítið lokað fyrir utanaðkomandi, sérstaklega þegar við tölum um flóttamannamál. Við vitum að Dyflinnarreglugerðinni hefur oft verið beitt þannig að álagið vill hlaðast upp á jaðarsvæðunum því þar kemur fólk við og á stundum erfitt með að komast innar inn í Evrópu.

Hér hefur líka verið rætt um kosti og galla þess að ganga alla leið inn í ESB og aðferðafræðina við það og sögu þess, hvernig því hefur verið háttað, umræða um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ekki urðu og þar fram eftir götunum. Í þessu sambandi er áhugavert að rifja upp að inngangan í EES var alls ekki óumdeild á sínum tíma, bara hreint ekki. Þar kom meira að segja til álita að þáverandi forseti, Vigdís Finnbogadóttir, myndi virkja málskotsákvæði stjórnarskrárinnar til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún tjáði sig um þetta þegar hún var enn þá forseti en það höfðu farið fram kosningar þar sem Ólafur Ragnar Grímsson sigraði og var að fara að taka við. Þetta var 9. júlí 1996, þá sagði Vigdís í viðtalsþætti í ríkissjónvarpinu að hún hefði mjög verið hvött til þess að beita þessu ákvæði, þessari 26. gr. Hún hefði meira að segja sjálf íhugað að segja af sér út af þessari stöðu, henni hefði fundist hún svo snúin. Þarna væri mögulega komin upp sú staða að valið yrði á milli hennar og ríkisstjórnarinnar. En af þessu varð ekki og það var að lokum bara ríkisstjórnin sem tók þessa ákvörðun. Eins og við þekkjum af sögunni seinna ákvað forsetinn sem tók við af henni að beita þessari grein, 26. gr., nokkrum sinnum og það var alls ekki óumdeilt. Hann beitti þessu tvisvar vegna Icesave-samninga sem að sjálfsögðu varða svolítið Evrópusamstarfið og mögulega væri álit fólks á Evrópusamstarfinu aðeins öðruvísi ef við hefðum ekki að lokum unnið fyrir EFTA-dómstólnum. En það er allt önnur og lengri saga. En þetta kom af stað svolítilli stemningu gagnvart því að þjóðaratkvæðagreiðslur væru góð leið til að leysa úr svona hnútum sem væru komnir upp í pólitíkinni. Þarna hefði jafnvel verið hægt að færa fram þau rök að ríkisstjórnin hefði kannski verið leyst úr þeirri snöru, þ.e. að ábyrg ríkisstjórn muni aldrei segja nei við að semja um svona skuld en ef þjóðin segir nei — hún sér kannski hlutina öðrum augum og er kannski með aðeins aðra stöðu gagnvart svona skuldbindingum — þá hefði þetta verið jákvætt að því leyti að valdið hefði verið hjá þjóðinni. Þetta varð m.a. til þess að flokkar fóru að taka upp þá stefnu að það ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald þeirra viðræðna sem voru í gangi um aðild að Evrópusambandinu sem ríkisstjórnin, sem tók við 2009, hafði komið af stað. Svo var mynduð ríkisstjórn 2013 með Framsókn og Sjálfstæðisflokknum og báðir flokkar voru með þá stefnu að það ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna. Þáverandi forsætisráðherra og núverandi hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var sérstaklega spurður út í hvort það myndi ekki fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla og hann sagði að að sjálfsögðu myndi það gerast. Það færi bara eftir tímasetningu sem yrði ákveðin síðar. Svo var einfaldlega ákveðið að hafa enga þjóðaratkvæðagreiðslu og hætta bara. Þá voru dregin fram þau rök að það hefði ekki farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um að ákveða að hefja þessar viðræður og alls konar svona þæfingar. Árið áður hafði farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá og mögulega hefur ríkisstjórnin sem tók við 2013 ekki viljað ljá því lögmæti með því að halda þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er ein kenning sem ég hef í kollinum. En það eru liðin næstum tíu ár síðan, heill áratugur, og öll stemning gagnvart þjóðaratkvæðagreiðslum hefur í rauninni legið í dvala eftir þetta og tilraunir til að innleiða sértæk ákvæði í þessari nýju stjórnarskrá hafa allar misheppnast. Það voru uppi hugmyndir um að taka inn einhver ákvæði sem vörðuðu þjóðaratkvæðagreiðslur en svoleiðis hugmyndir hafa ekki sést í nokkur ár. Núverandi forseti hefur ekki áhuga á þessu.

Ég vildi bara koma inn á þetta sögulega samhengi og hvað hefur gerst síðan þá og hvernig hefðin hefur alltaf verið, að þessar ákvarðanir séu ekki teknar í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu sem er í raun óvanalegt í alþjóðlegu samhengi. Eins og komið hefur verið inn á hérna í ræðum þá var mjög nýlega haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um aðild Breta að Evrópusambandinu sem engum þar datt í hug að virða ekki. Það er í raun pólitískt val að ákveða hvort og hvernig skuli beita þjóðaratkvæðagreiðslum og hvort það sé til eitthvað sem hefur verið kallað pólitískur ómöguleiki. Í rauninni þýðir það viljaleysi til þess að beita þjóðaratkvæðagreiðslum. Það er bara afstaða út af fyrir sig. Það má alveg takast á um gildi þess hvort beita eigi þjóðaratkvæðagreiðslum eða ekki. Hins vegar vildi ég bara að impra á því að hvor afstaða um sig er lögmæt.