Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Í dag mun ég mæla fyrir breytingum á lögum um stjórn fiskveiða. Ekki er það nú í fyrsta skipti. Það verður í fjórða sinn. Af hverju? Og hvers vegna hafa breytingar ekki náð fram að ganga? Mig langar til að benda á það að núna á Tröllaskaga, á Siglufirði, sem telst nú vera orðinn minn heimabær, Fjallabyggð, er hreinlega verið að þurrka upp stórútgerðina af öllu svæðinu. Ísfélagið í Vestmannaeyjum er búið að sameinast Ramma og á orðið núna 70% í Ramma, þannig að við sjáum fram á það að innan skamms verður ekkert um að vera. Það verður bara ekkert að ske, eins og þar stendur, við ströndina. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt og lífsnauðsynlegt fyrir sjávarplássin okkar úti um allt land að tryggja strandveiðar, að tryggja smábátunum tækifæri til þess að sækja björg í bú og vinna og stunda sjóinn. Þannig að, virðulegi forseti, ég mun engan veginn átta mig á því hvernig ekki verður tekið utan um það að tryggja það sem frumvarp mitt felur í sér í dag, að tryggja 48 daga skilyrðislaust fyrir þessa smábáta til veiða. Af 365 dögum á ári á er einungis verið að fara fram á það að tryggja þeim 48 daga til að sækja sjóinn og að þeir ráði því sjálfir hvaða daga mánaðar þeir sækja sjóinn, að það sé ekki verið að banna þeim að fara til veiða á föstudögum, laugardögum og sunnudögum bara af því að ráðherrann vill segja það í sinni reglugerð, heldur að þeir geti metið það sjálfir hvort það gefur vel á sjóinn eða ekki, að við séum ekki vísvitandi að ýta þeim út í það að æða út í alls konar veðrum að ástæðulausu. Í alla staði þá er þetta gott mál.

(Forseti (BÁ): Forseti vill geta þess að klukkan í ræðustólnum er eitthvað að stríða okkur (IngS: Ánægjulegt, herra forseti.) þannig að forseti mun gefa létt hljóðmerki þegar ræðumenn eru við það að ljúka þeim tíma sem þeir hafa til ráðstöfunar, sem eru tvær mínútur. )