Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

Störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Að undanförnu hafa bæjarstjórar flestra, líklega allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, utan Reykjavíkur, kallað eftir því að samgöngusáttmálinn svokallaði verði endurskoðaður. Ég man ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra hafi ljáð máls á því í svari við fyrirspurn minni hér ekki alls fyrir löngu. Hins vegar gerðist það í gær að meiri hlutinn í Reykjavík felldi tillögu um endurskoðun sáttmálans. Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart því að þessum sama meiri hluta hefur tekist að plata ríkisstjórnina og þingið til að fjármagna helstu kosningaloforð leiðandi flokksins í því samstarfi.

En þá stendur það upp á þingið að bregðast við. Ætlum við að láta það viðgangast að þótt framkvæmdir séu varla hafnar séu þær komnar helming fram úr áætlun og einn verkþáttur sé kominn 550% fram úr áætlun? Hvers vegna er það? Það er vegna þess að búið er að gjörbreyta áformunum í þeim verkþætti og við vitum ekkert hvað verður með alla hina. Þetta kallar með öðrum orðum augljóslega á endurskoðun þessa samkomulags. Nú stendur það upp á þingið, fyrst ríkisstjórnin bregst ekki við, að beita sér fyrir endurskoðun sáttmálans sem þetta þing fjármagnaði á ákveðnum forsendum og áformum sem munu ekki standast, því það er verið að gera ítrekaðar breytingar á þeim áformum sem þar var lýst og voru samþykkt, illu heilli, hér á þingi og af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það er verið að gera breytingar á þeim áformum en samt má ekki endurskoða sáttmálann, þrátt fyrir að allir bæjarstjórar bæjanna í kringum Reykjavík kalli eftir því. Því skyldi það vera? Ég held við getum flest fyllt í þá eyðu, en nú stendur upp á þingið að grípa þarna inn í og krefjast endurskoðunar enda er þingið eða ríkissjóður að fjármagna þennan sáttmála að langmestu leyti.