Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

hungursneyðin í Úkraínu.

581. mál
[16:04]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur andsvarið. Já, við deilum örugglega þessum tilfinningum og þessari reynslu hér á Íslandi og kannski víðar í Evrópu. Ég held að það sé mikilvægt að við höfum í huga að kannski hefur aldrei verið eins mikilvægt að halda í heiðri ákvæði mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Evrópu og önnur þau gildi og viðmið sem við höfum, vestrænar þjóðir og þjóðir sem teljast til lýðræðissamfélaga, ákveðið að undirgangast og samþykkja. Það eru í rauninni þau bönd sem eiga að halda utan um okkur og halda okkur innan marka, ef svo má að orði komast, vegna þess að eitt eiga harðstjórarnir sameiginlegt og það er að virða ekki mannréttindi og um leið og þú hættir að virða mannréttindi þá held ég að gatan til glötunar sé tiltölulega bein og breið.