Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

hungursneyðin í Úkraínu.

581. mál
[16:13]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil, líkt og aðrir hérna, þakka sérstaklega fyrsta flutningsmanni, Diljá Mist Einarsdóttur, fyrir þetta góða mál. Það er sérstaklega ánægjulegt að náðst hefur samstaða um að mæla fyrir því núna og hefja umræðu um það. Eftir tvo daga er eitt ár frá því að innrás Rússa í Úkraínu, fullvalda sjálfstætt ríki, átti sér stað og þetta mál varðar auðvitað úkraínsku þjóðina.

Það voru skemmtilegar umræður hér um að fyrir 30 árum hefðum við öll verið full bjartsýni og talið að takmörk okkar væru óendanleg. Og þannig er það bara í lífinu, það skiptast á skin og skúrir. Við förum í gegnum períóður þar sem við erum full svartsýni og öðrum stundum erum við full bjartsýni og kannski er það mannkyninu bara hollt. Það væri erfitt að vera til ef ekki væri fullvissa um að dagur fylgi nótt og nótt fylgi degi. Það er nú bara taktur lífsins. Í því felst líka að jafnvel þó að við stöndum frammi fyrir þessum hrikalegu atburðum í Úkraínu núna þá getum við verið nokkuð fullviss um það að fyrr eða síðar mun birta til. Sagan okkar er öll vörðuð stórum og litlum atburðum og það fennir nú yfir þá flesta. En okkur hættir kannski til að minnast og halda á lofti atburðum sem er auðvelt fyrir okkur að spegla okkur í og okkur líður vel með. Það getur verið léttara að sópa undir teppi hlutum sem eru óþægilegir og óhuggulegir.

Þessi hræðilegu hópmorð í Úkraínu eru meðal þeirra atburða sem við getum ekki bara ýtt til hliðar heldur þurfum að horfast í augu við. Mér finnst ekki skipta minnstu máli að gera það núna og afgreiða málið hratt og örugglega vegna þess að við stöndum andspænis stríði sem snýst að miklu leyti um gildi, gildi fyrir frelsi, jafnrétti, mannréttindum og umburðarlyndi. Ástæður þessara hryllilegu atburða má auðvitað rekja til þess að einhverju leyti að lítið var gert með slík viðhorf. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég hlakka til að fjalla um málið í nefndinni. Ég held að það ætti að geta gerst rösklega og það væri gaman að sjá þetta verða að samþykkt innan skamms.