Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

sjúkratryggingar.

679. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá er markmiðið fyrst og fremst að verja sjúklinga fyrir þessu ástandi til þess að verjast því að íslenskt heilbrigðiskerfi og velferðarsamfélag leyfi það að sjúkt fólk sé látið opna veskið og greiða fyrir sjálfsagða og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Við eigum lög í kringum gerðardóm, það er ákvæði þar um skipan o.s.frv. og hvernig hann eigi að starfa. Samkvæmt þessu frumvarpi er hægt að grípa til ákveðinna ráðstafana ef deiluaðilar eru ekki sammála um hvernig gerðardómurinn á að vera skipaður. En fyrst og fremst er ég þarna, og við sem erum flutningsmenn þessa frumvarps, að horfa á hvaða tæki við höfum og hvaða tæki við höfum við svipaðar aðstæður þegar samningar nást ekki á milli deiluaðila. Þess vegna leggjum við þetta til og ég held að það muni koma að gagni. En það skiptir máli hver útgangspunkturinn er. Útgangspunkturinn er að við erum með heilbrigðiskerfi á Íslandi sem þarf að virka og við erum velferðarsamfélag og viljum ekki sortera fólk eftir því hvort það er fátækt eða ríkt. Núna er ástandið þannig hjá flestum sérgreinalæknum að biðlistar eru langir þannig að þeir loka ekki neitt því að veikt fólk gerir náttúrlega allt sem það getur og borgar eins og það getur til að fá heilbrigðisþjónustu sem það þarf til að lifa. Þetta er fyrst og fremst ómöguleg staða sem sjúklingar og veikt fólk er sett í og við hér, löggjafinn, þurfum að tryggja þau og vernda þau fyrir því ástandi sem nú ríkir.