Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

sjúkratryggingar.

679. mál
[16:56]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þetta mikilvæga frumvarp og þetta mikilvæga frumkvæði sem hún hefur tekið sem snýst í grunninn um að verja sjúklinga, ekki síst langveikt fólk, fyrir falinni skattheimtu, földum kostnaði. Hv. þingmaður og fyrsti flutningsmaður málsins, Oddný G. Harðardóttir, fór hér mjög vel yfir efnisatriði frumvarpsins og hvernig stendur á því að það er lagt fram.

Mig langar að víkja líka aðeins að því við hvers konar aðstæður í samfélaginu við í þingflokki jafnaðarmanna fundum okkur knúin til að leggja fram og flytja þetta frumvarp. Samkvæmt könnunum Gallup á fjárhag heimila hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem ná ekki endum saman. Þetta hlutfall hefur þrefaldast frá byrjun ársins 2021 til janúar, febrúar 2023, þrefaldast, farið úr 6% í 18%. Þetta eru sláandi tölur, verð ég að segja. Undanfarna mánuði hefur kaupmáttur rýrnað mjög hressilega vegna verðbólgu sem hæstv. ríkisstjórn hefur misst öll tök á. Greiðslubyrði vegna húsnæðislána hefur þyngst, kannski ekki síst í ljósi þess að Seðlabankanum er látið nær einum eftir að reyna að sporna við þessari verðbólgu. Ekki er ríkisfjármálunum beitt nægilega í því skyni. Hlutfall þeirra sem býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað fer hækkandi um þessar mundir og ójöfnuður samkvæmt Gini-stuðlinum er líka farinn að vaxa. Þetta eru allt tölulegar staðreyndir. Ofan á þetta bætist það sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir rakti svo vel í sinni ræðu og fleiri ræðumenn hér í dag hafa komið inn á, sem eru þessar hindranir í vegi jafns aðgangs að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og sú staðreynd að aukagjöld sem eru lögð á almenning við komu til sérfræðinga, sérfræðilækna og sjúkraþjálfara, hafa rokið upp úr öllu valdi vegna samningsleysis ríkisins við þessar stéttir.

Öryrkjabandalagið hefur látið greina sérstaklega umfang þessarar umframgjaldtöku og um þetta er fjallað í ítarlegri skýrslu eftir Svein Hjört Hjartarson. Þar kemur fram að á árinu 2020 var umfang komugjalda í heilbrigðiskerfinu 1,7 milljarðar. Þetta er sem sagt þessi faldi kostnaður sem ég minntist hér á sem lendir á landsmönnum óháð fjárhag en kemur auðvitað þyngst niður á þeim efnaminni og ekki síst á fólkinu sem þarf á mikilli læknisþjónustu að halda. Það segir sig sjálft. 1,7 milljarðar árið 2020, en í dag er þessi fjárhæð líklega nær 5 milljörðum, samkvæmt þeirri aðferðafræði sem var notuð í þessari skýrslu. Hvernig stendur á þessu? Hvar liggur ábyrgðin?

Þann 23. nóvember sl. hélt Öryrkjabandalag Íslands — afsakið, ÖBÍ – réttindasamtök, það vilja samtökin láta kalla sig í dag — samtökin héldu málþing um þessi aukagjöld. Þar voru ræðumenn á einu máli um það að stóri vandinn og það sem helst stæði í vegi þess að samningar næðust og hægt væri að koma böndum á eða eyða með öllum þessum aukakostnaði sjúklinga væri tregða núverandi ríkisstjórnar til að fjármagna heilbrigðisþjónustu með viðunandi hætti. María Heimisdóttir, þáverandi forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sagði á málþinginu að það hvort samningar næðust milli sérgreinalækna og sjúkraþjálfara við ríkið ylti að verulegu leyti á því hvernig fjárlög ársins 2023 myndu lenda, hvaða breytingar yrðu gerðar á fjárlagafrumvarpinu sem þá hafði verið lagt fram, hvort það yrði veitt fjármagn sérstaklega til þess að liðka fyrir þessum samningum. Þetta kom mjög skýrt fram í hennar máli. Hvað gerðist svo í framhaldinu í fjárlagavinnunni? Ja, í þessum efnum gerðist ekki neitt. Alþingi samþykkti fjárlög án þess að gert væri ráð fyrir auknum fjárheimildum til að hægt væri að ná samningum við þessar stéttir. Ég veit svo sem ekki hvort það var tilviljun en akkúrat um það leyti sem það var ljóst að Alþingi hygðist ekki bregðast við til að tryggja að samningar næðust þá bárust fréttir af því að þessi ágæti embættismaður, María Heimisdóttir, hefði ákveðið að segja upp störfum. Hún vísaði einmitt sérstaklega til fjársveltis gagnvart bæði stofnuninni sjálfri sem hún stýrði og þeim verkefnum almennt sem stofnunin kemur að. Fjársveltið væri í raun að gera stofnuninni erfitt að gegna sínu hlutverki.

Ég varpaði spurningum til ríkisstjórnarinnar hér í ræðustól þann 5. desember sl. Það lægi greinilega ekki á í huga ríkisstjórnarinnar og ráðherra að semja við sérfræðilækna og sjúkraþjálfara á næstunni fyrst fjármagn hefði ekki verið veitt til þess, og ég spurði: Hvernig ætlar þá ríkisstjórnin að koma í veg fyrir að öryrkjar og langveikt fólk þurfi að greiða allan þennan kostnað úr eigin vasa? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að tryggja að þessum byrðum yrði létt af fólki sem má svo sannarlega ekki við þeim? Ég fékk engin svör. Það komu engar lausnir frá ríkisstjórninni, engar lausnir frá hæstv. heilbrigðisráðherra né öðrum ráðherrum.

En pólitík snýst ekki bara um að gagnrýna, hún snýst líka um að leggja til lausnir og hér hefur hv. þingmaður jafnaðarmanna, Oddný G. Harðardóttir, lagt fram mikilvægt frumvarp sem snýst einmitt um þetta og er mjög mikilvægt innlegg inn í umræðuna. Hér er annars vegar lagt til í 1. gr. frumvarpsins að veitendum þjónustu verði óheimilt að krefja sjúklinga um frekari gjöld en þau sem kveðið er á um í 29. gr. sjúkratryggingalaga, í þeim tilfellum þegar þau skilyrði sem sett eru í 38. gr. eru að öðru leyti uppfyllt. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir að unnt verði að leggja þessi aukagjöld á heilbrigðisþjónustu sem Sjúkratryggingar greiða fyrir í samræmi við ákvæði 38. gr. Með því yrðu þá sjúklingar ekki látnir bera þennan kostnað af samningsleysinu. Svo er hins vegar í 2. gr. lagt til að komið verði á samningsbundnum gerðardómi í þeim tilvikum þegar samningur hefur runnið út og árangurslausar viðræður um endurnýjun samnings hafa staðið lengur en í níu mánuði frá lokum gildistíma samnings. Meðan við sitjum uppi með ríkisstjórn sem greinilega treystir sér ekki til að fjármagna samninga við sérfræðilækna og samninga við sjúkraþjálfara þá er það minnsta sem við getum gert hér á löggjafarþinginu að grípa til aðgerða til að verja sjúklinga fyrir þessum gríðarlega umframkostnaði.

Ég fagna mjög þessu frumvarpi og þeirri umræðu sem það vekur. Ég myndi líka fagna því ef það kæmu einhverjar lausnir úr ranni stjórnarliða. Ég myndi svo sannarlega fagna því líka. Ef ekki þá legg ég til að Alþingi sameinist um þetta góða mál og að þetta frumvarp verði að lögum. Ég held að þetta sé það minnsta sem við getum gert fyrir langveikt fólk, fyrir fólk sem má svo sannarlega ekki við því að bera þessar byrðar án stuðnings hins opinbera.