Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

sjúkratryggingar.

679. mál
[17:17]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir sitt seinna andsvar. Hún spyr hvort það þurfi að breyta lögum í kringum heilbrigðisþjónustu til að breyta ástandinu. Stutta svarið er nei. Jú, það er rétt, við erum með blandað heilbrigðiskerfi; við erum með ríkisreknar stofnanir í bland við sjálfstætt starfandi lækna. Þessir sjálfstætt starfandi læknar eru oft á tíðum, og sérstaklega úti á landsbyggðinni og jú, reyndar líka hér á stórhöfuðborgarsvæðinu, að sinna þjónustu bæði sem sjálfstætt starfandi læknar og líka inni á ríkisstofnunum. Þessi mannauður sem við höfum yfir að búa er gríðarlega mikilvægur. Það sem hræðir mig, svo það sé sagt hér, er að þessi tillaga varðandi gerðardóm verði til þess fallin að það náist ekki sátt um þessa þjónustu og að þessir sérfræðilæknar sem við stólum á í heilbrigðiskerfinu okkar, hvort sem það er í ríkisrekna kerfinu eða sem sjálfstætt starfandi, kjósi bara að leita annað. Það eru áhyggjur sem ég hef og ég veit að aðrir deila með mér. Ég er reyndar ekki sammála hv. þingmanni um að hér ríki algjört úrræðaleysi því að ég trúi því að á meðan fólk situr við samningaborðið sé klárlega vilji hjá báðum aðilum til að ná samningum. Ég held að þessi tillaga hér sé því í rauninni ekki tímabær eins og sakir standa í dag en þakka samt sem áður fyrir afar mikilvægt samtal.