Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

stjórn fiskveiða.

105. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er sannarlega verulega glöð yfir því að við séum hér í sama liðinu. Ef ég skil það rétt þá erum við í sama liði og því fleiri sem koma með okkur í þetta lið því betur stöndum við. Þannig er nú það. Ég efast ekkert um það að við erum hér mörg, þrátt fyrir að vera ekki í Flokki fólksins þá eru hér mjög margir stuðningsaðilar, nákvæmlega, við landsbyggðina okkar, við sjávarplássin okkar og við smábátasjómennina okkar. Eins og ég benti á áðan mun aldrei verða hægt að draga það fram í dagsljósið að krókaveiðar, handfæraveiðar, muni á einhvern hátt á einhverjum tímapunkti ógna lífríkinu í kringum landið. Það er hafsjór á milli þess eða að vera hérna með snurvoð eða dragnætur nánast upp í fjöru. Þannig að ég bind miklar vonir við það að núna undir stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sjávarútvegsmálum, muni þetta ná fram að ganga og að hagsmunir strandveiðisjómanna verði settir í fyrirrúm.